Erlent

Barns­hafandi kona stungin til bana í Dan­mörku

Atli Ísleifsson skrifar
Árásarmannsins er enn leitað.
Árásarmannsins er enn leitað. Getty

Barnhafandi kona var stungin til bana í Holbæk á Sjálandi í Danmörku í gærkvöldi. Lögregla á Sjálandi segir að konan hafi verið 37 ára og margsinnis stungin með hníf. Fram kemur að barn konunnar sé enn á lífi.

Konan er sögð hafa verið á leið heim úr vinnu og setið í bíl sínum þegar óþekktur maður réðst á hana. Stakk maðurinn konuna margsinnis og dró hana út úr bílnum.

Fram kemur í frétt DR að sjónarvottur hafi reynt að stöðva árásina en ekki tekist. „Það er kona sem á leið hjá sem reynir að grípa inn í og grípur í árásarmanninn, en gat ekki komið í veg fyrir drápið,“ segir talsmaður lögreglu við fréttaveituna Ritzau.

Árásarmaðurinn gengur enn laus og er lögregla enn með mikinn viðbúnað á Samsøvej þar sem árásin átti sér stað. 

Lögregla segist ekki vita að svo stöddu hver árásarmaðurinn sé og er hans enn leitað. Ekki er heldur hægt að upplýsa um hver kann að hafa verið ástæða árásarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×