Viðskipti innlent

Nýjar peysur í H&M „vanvirðing við íslensku lopapeysuna“

Margrét Björk Jónsdóttir skrifar
Peysur úr H&M sem minna óneitanlega á klassísku íslensku lopapeysurnar
Peysur úr H&M sem minna óneitanlega á klassísku íslensku lopapeysurnar Twitter/Lovísa Falsdóttir

Nýjar peysur í versluninni H&M vöktu at­hygli á dögunum. Peysurnar minna ó­neitan­lega á hinar klassísku ís­lensku lopa­peysur. Stjórnar­for­maður Hand­prjóna­sam­bandsins segir þetta miður, en munstrið sé þó ekki upp­runa­vottað.

Lovísa Fals­dóttir skrifaði um málið á Twitter og birti mynd af peysunum. „How dare you H&M“, skrifar Lovísa við myndina.

Frétta­stofa leitaði við­bragða hjá Hand­prjóna­sam­bandi Ís­lands. Hildur Sveins­dóttir stjórnar­for­maður er allt annað en sátt. „Mér finnst þetta auðvitað ömurlegt og illa farið með íslensku lopapeysuna. Að fjöldaframleiða peysur úr lélegu efni sem líta út eins og íslenskar lopapeysur er vanvirðing við íslensku lopapeysuna og hefðina sem við höfum skapað með henni“, segir Hildur.

„Þetta er hluti af neyslumenningu nútímans, fast fashion en við erum auðvitað á hinum endanum, slow fashion, þar sem hver peysa er prjónuð í höndum á Íslandi úr íslenskum lopa."

Hildur bendir þó á að munstrin séu ekki upp­runa­vottuð. Hún segir að þar sem H&M aug­lýsi peysurnar ekki sem „ís­lensk lopa­peysa“ eða nefna hana ekki þannig þá geti fyrir­tækið í raun gert hvað sem það vill, því miður.“

Árið 2020 sam­þykkti Mat­væla­stofnun að heitið Ís­lensk lopa­peysa – Icelandic Lopa­peysa yrði skráð sem verndað af­urðar­heiti með vísan til upp­runa.

Á heima­síðu Mat­væla­stofnunar má sjá þau skil­yrði sem peysa þarf að upp­fylla til að hljóta slíka skráningu. Þau eru eftir­farandi:

  1. Ullin sem notuð er í hand­prjónaðar ís­lenskar lopa­peysur skal vera klippt af ís­lensku sauð­fé
  2. Í peysuna skal notuð nýull (ull sem ekki er endur­unnin)
  3. Peysan skal vera prjónuð úr lopa, s.s. plötu­lopa, Létt­lopa, Ála­foss­lopa o.s.frv.
  4. Peysan skal hafa hring­prjónað beru­stykki með munstur­formum og/eða munstur­bekkjum frá herða- eða axla­línu að háls­máli
  5. Peysan skal vera hand­prjónuð á Ís­landi
  6. Peysan skal vera prjónuð í hring án sauma (sam­setningar)
  7. Peysan skal vera opin eða heil

Fréttin hefur verið uppfærð


Tengdar fréttir

Made in Iceland

Handverkskonur í Þingeyjarsýslum mótmæltu því, með orðum á borð við „að svívirða“ og „siðlaust“, að sumir íslenskir fataframleiðendur fjöldaframleiddu „íslenskar“ lopapeysur erlendis. Auðvitað má hafa samúð með afstöðu þeirra, en sú samúð má ekki bera skynsemina ofurliði. Enginn byggir upp iðnað með þjóðernishyggju og ást á óhagkvæmni að leiðarljósi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×