Innlent

Ætlar að skipta Loga inn fyrir Helgu Völu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kristrún og Logi á landsfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi.
Kristrún og Logi á landsfundi Samfylkingarinnar um síðustu helgi. Vísir/Vilhelm

Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn formaður Samfylkingarinnar, stefnir að því að Logi Einarsson verði nýr þingflokksformaður flokksins. Þetta herma heimildir fréttastofu.

Ríkisútvarpið greindi frá því í hádeginu og vísaði til heimilda sinna að til stæði að skipta Helgu Völu Helgadóttur út sem þingflokksformanni. Helga Vala hefur gegnt starfinu í tæpt ár. Hún tók við af Oddnýju Harðardóttur eftir þingkosningarnar í fyrra. Oddný hafði verið þingflokksformaður í fjögur ár.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggst Kristrún gera Loga, fráfarandi formann, að þingflokksformanni.

Kristrún vildi ekki játa né neita hvort til stæði að skipta um þingflokksformann á fundi þingflokksins, þeim fyrsta eftir formannskjör Kristrúnar, á mánudag. Hún tjáði Ríkisútvarpinu að ekki væri tímabært að ræða málið. Þá vísaði Helga Vala á Kristrúnu aðspurð um málið.

Samkvæmt heimildum fréttastofu horfir Kristrúnu meðal annars til þess að hafa þungavigtarmann að norðan sem formann þingflokksins. Kristrún er þingmaður í Reykjavík og hið sama gildir um Helgu Völu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×