Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Kolbeinn Tumi Daðason les fréttir klukkan 18.30.
Kolbeinn Tumi Daðason les fréttir klukkan 18.30. Stöð 2

Lögmaður Hussein Hussein, fatlaðs manns sem vísað var úr landi á fimmtudag, segir mál hans svo fordæmalaust að það kalli á fordæmalausar aðgerðir á borð við vitnakvaðningu. Dómari mun ákveða á fimmtudag hvort Hussein komi aftur til landsins til þess að gefa skýrslu fyrir dómi. Við fjöllum um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30.

Viðhorf almennings í helstu iðnríkjum heims til kvenleiðtoga hefur versnað ef eitthvað er á undanförnum árum, að sögn ráðgjafa þings kvenleiðtoga í Reykjavík. Þingkona frá Úkraínu segir Rússa hafa sprengt hundruð skóla og heilbrigðisstofnana í loft upp. Heimir Már var á þinginu í dag og ræðir við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, stjórnarformanns Reykjavík Global Forum, í beinni útsendingu.

Þá förum við yfir þingkosningarnar í Bandaríkjunum sem haldnar eru í dag. Repúblikönum er spáð stórsigri, sem þýðir tvö erfið ár fram undan hjá Bandaríkjaforseta. Fréttamaður okkar Samúel Karl Ólason kemur í myndver og rýnir í málin.

Við ræðum einnig við landeiganda við Kirkjufell en hópur þeirra hefur nú bannað aðgang að fjallinu fram á næsta sumar vegna tíðra banaslysa á stuttum tíma. Kristján Már segir frá nýjum vendingum í jarðgangamálum og við verðum í beinni útsendingu frá forsýningu á óvenjulegri heimildarmynd um niðurrif Íslandsbankahússins við Lækjargötu. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.

Hlusta má á fréttatímann í spilaranum hér að ofan. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×