Fótbolti

Þýsku meistararnir juku forskot sitt á toppnum með stórsigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Serge Gnabry skoraði þrennu fyrir Bayern í kvöld.
Serge Gnabry skoraði þrennu fyrir Bayern í kvöld. Stefan Matzke - sampics/Corbis via Getty Images

Þýskalandsmeistarar Bayern München eru nú með fjögurra stiga forskot á toppi þýsku deildarinnar í knattspyrnu eftir að liðið vann afar öruggan 6-1 sigur gegn Werder Bremen í kvöld.

Jamal Musiala kom liðinu yfir strax á sjöttu mínútu leiksins áður en Anthony Jung jafnaði metin fyrir gestina fjórum mínútum síðar.

Heimamenn fengu svo vítaspyrnu á 18. mínútu, en Eric Maxim Choupo-Moting misnotaði spyrnuna. Fjórum mínútum síðar var staðan þó orðin 2-1 fyrir þýsku meistaranna þegar Serge Gnabry setti boltann í netið.

Leon Goretzka bætti þriðja markinu við á 26. mínútu og á 28. mínútu sá Serge Gnabry til þess að staðan var 4-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Fyrri hálfleikurinn bauð þó ekki einungis upp á góðar fréttir fyrir heimamenn því að á 21. mínútu þurfti Sadio Mané að fara meiddur af velli, aðeins 13 dögum aður en heimsmeistaramótið hefst í Katar.

Heimamenn gerðu svo endanlega út um leikinn á seinustu tíu mínútunum, en Serge Gnabry fullkomnaði þrennu sína á 82. mínútu áður en hinn 17 ára gamli Mathys Tel skoraði sjötta mark liðsins rúmum fimm mínútum fyrir leikslok.

Niðurstaðan því öruggur 6-1 sigur Bayern, en liðið trónir á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar með 31 stig eftir 14 leiki, fjórum stigum meira en Freiburg sem situ í öðru sæti, en á leik til góða.

Þá mátti Dortmund þola 2-0 tap er liðið heimsótti Wolfsburg, Bochum vann 2-1 sigur gegn Borussia Mönchengladbach og Stuttgart vann dramatískan 2-1 sigur gegn Hertha Berlin þar sem sigurmarkið var skorað á 98. mínútu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×