Fótbolti

Segir að valið á Gabriel Martinelli í HM-hópinn sé vanvirðing við fótbolta

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gabriel Martinelli í einum af þremur landsleikjum sínum fyrir Brasilíu.
Gabriel Martinelli í einum af þremur landsleikjum sínum fyrir Brasilíu. getty/Javier Mamani

Fyrrverandi landsliðsmaður Brasilíu í fótbolta segir að landsliðsþjálfarinn Tite hafi sýnt fótboltanum vanvirðingu með því að velja Gabriel Martinelli í HM-hóp Brassa.

Baráttan um sæti í HM-hópnum var hörð og margir sterkir leikmenn sátu eftir með sárt ennið, þeirra á meðal Roberto Firmino og Gabigol. Sá síðarnefndi baunaði á Tite á samfélagsmiðlum eftir að valið var kunngjört og hann á hauk í horni í fyrrverandi landsliðsmanni Brasilíu, Neto.

„Þetta er synd, algjört grín! Ég skammast mín! Hver er saga Martinellis? Hann hefur skorað 33 mörk á ferlinum,“ sagði Neto sem lék sextán landsleiki og skoraði sjö mörk á árunum 1988-93.

„Að velja Martinelli en ekki Gabigol er virðingarleysi. Mesta ruglið af öllu,“ bætti Neto við. Hann segir að heima í Brasilíu viti enginn hver Martinelli sé.

„Martinelli skorar fimm mörk á tímabili og ef hann labbar um hérna þekkir hann enginn. Að taka ekki Gabigol sem skoraði sigurmarkið í úrslitaleik Copa Libertadores og var með 29 mörk á tímabilinu. Hvað hefur Martinelli gert í evrópskum bolta? Arsenal er ekki einu sinni í Meistaradeild Evrópu. Þetta er skandall!“

Hinn 26 ára Gabigol hefur skorað grimmt fyrir Flamengo undanfarin ár eftir misheppnaða dvöl hjá Inter á Ítalíu. Hann hefur leikið átján landsleiki og skorað fimm mörk.

Martinelli lék sinn fyrsta landsleik fyrr á þessu ári og hefur síðan bætt tveimur við. Hann hefur skorað fimm mörk í átján leikjum fyrir Arsenal í öllum keppnum á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×