Lífið

Ís­lands­vinur kallar sig nú Rainn­fall Heat Wave Rising Sea Levels Wil­son

Árni Sæberg skrifar
Rainnfall Heat Wave Rising Sea Levels Wilson er nýtt nafn, allavega á samfélagsmiðlum, listamannsins sem var áður þekktur sem Rainn Wilson.
Rainnfall Heat Wave Rising Sea Levels Wilson er nýtt nafn, allavega á samfélagsmiðlum, listamannsins sem var áður þekktur sem Rainn Wilson. Amanda Edwards/Getty Images

Íslandsvinurinn og gamanleikarinn Rainn Wilson tilkynnti í gær að hann hefði breytt nafni sínu í Rainnfall Heat Wave Rising Sea Levels Wilson á helstu samfélagsmiðlum. Það gerði hann í nafni baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Wilson er meðlimur samtakanna Arctic Basecamp, sem vinna að því að vekja athygli á áhrifum loftslagsbreytinga á Norðurheimskautið og afleiddar afleiðingar þeirra. Vísir fjallaði nýverið um samtökin þegar Dorrit Moussaieff, fyrrverandi forsetafrú, gisti í tjaldi fyrir utan Hörpu á vegum samtakanna.

Wilson, eða Rainnfall Heat Wave Rising Sea Levels Wilson líkt og hann kallar sig nú, segir að með því að breyta nafni sínu ætli hann að vekja athygli á loftslagsvánni og þeirri hættu sem bráðnun Norðurheimskautsins veldur um allan heim. Hann tilkynnti nafnbreytinguna í myndskeiði á Twitter. Hann hefur þó ekki getað breytt nafni sínu á þeim miðli vegna nýrra reglna eftir að Elon Musk tók við völdum þar á bæ.

Nýja nafnið mætti þýða á íslensku sem Rigning Hitabylgja Hækkandi Sjávarstaða Wilson, en það eru allt afleiðingar hækkandi hitastigs í heiminum. Fyrir utan Wilson, auðvitað.

Þá leggur hann til að fleiri stjörnur breyti nöfnum sínum og stingur meðal annars upp á nöfnunum Cardi The Arctic B Melting, Harrison Why Not Drive An Electric? Ford og Leonardo Di-Polar Ice Caprio Are Melting.

Rainnfall hefur komið hingað til lands nokkrum sinnum, meðal annars til þess að leika í Ráðherranum, og telst því til svokallaðra Íslandsvina. Þó fór hann heldur ófögrum orðum um landið á Instagram í sumar.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.