Fyrir um einu og hálfu ári lýstu ýmsir meðferðaraðilar og sérfræðingar því í samtali við fréttastofu að von væri á byltingu í meðferð við kvíða, þunglyndi og jafnvel fíknisjúkdómum með efninu sílósíbín (psilocybin) sem unnið er úr ofskynjunarsveppum.

Í gær var svo lögð fram þingsályktunartillaga á Alþingi um heimild til rannsókna og notkunar á efninu sílósíbíni í geðlækningaskyni.
Gunnar Bjarni Ragnarsson formaður læknaráðs Landspítala er ánægður með þetta skref.
„Þessi áhugi á geðheilbrigðismálum er jákvæður. Eins og ég skil frumvarpið er verið að leggja til við heilbrigðsráðherra í samvinnu við heilbrigðisstofnanir að meta hvort það séu einhverjar hindranir í reglugerðum sem myndu hindra notkun þessara lyfja. Og að umgjörð sem þarf til að gefa lyfin sé til staðar ,“ segir hann.
Ýmsar rannsóknir hafa verið gerðar síðustu ár sem hafa sýnt jákvæðar niðurstöður þegar efnið er notað.Nú er einkum horft til breska lyfjafyrirtækisins Compass Pathways þar sem þriðji fasi rannsóknar á efninu og umgjörð meðferðar er hafinn.
Gunnar Bjarni segir mikilvægt að Íslendingar taki þátt í slíkum rannsóknum.
„Mér finnst nauðsynlegt að Íslendingar taki þátt í rannsóknum. Ég veit til þess að það er búið að leita til íslenskra aðila um að taka þátt í rannsókn Compass Pathways eða þessum fasa þrjú,“ segir hann
Gunnar segir að margt geti gerst, ekkert fast í hendi með árangur.
„Það má minna á að það er bara búið að gera tvo fasa í rannsóknum og þá á eftir að gera þann þriðja. Hann ræður því hvort að lyf séu sett á markað,“ segir hann.
Hann segir erfitt að meta hversu langan tíma þetta taki. Gríðarlega mikilvægt sé að rannsóknin sé gerð rétt.
„Lyf hafa t.d. aukaverkanir sem þarf að fylgjast með og hver hin rétta umgjörð eigi að vera. Það eru vísbendingar um að upplifun á meðferð hafi áhrif á batann og hún þurfi að vera sem jákvæðust. Ég skil vel að fólk sé óþolinmótt en það er gríðarlega mikilvægt að vanda til verka í þessu,“ segir hann.
Varar við að fólk noti efnið án eftirlits
Það að það sé þverpólitísk samstaða um þingsályktun um Sílósíbin sýnir kannski hversu mikill áhugi er almennt í samfélaginu á þessum málaflokk. Gunnar varar fólk hins við því að nota slík efni án eftirlits.
„Við sjáum mikinn áhuga á þessu. Við vörum hins vegar við því að prófa þetta heima án eftirlits. Það er nauðsynlegt að meðferðaraðili fylgi fólki eftir í gegnum slíka meðferð verði hún tekin í notkun. Aukaverkanir geta verið ófyrirséðar og þá þurfa meðferðaraðilar að taka á því. Ég hvet fólk til að bíða eftir niðurstöðum rannsókna um þessi efni og leita til sinna meðferðaraðila hafi þeir áhuga á að kynna sér þetta frekar. Við þurfum að fylgja vísindunum í notkun hugvíkkandi efna,“ segir hann að lokum.