Erlent

Pútín firrir sig ábyrgð á undanhaldinu

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússar sprengdu Antonovsky-brúna sem liggur yfir Dnipro. Úkraínumenn höfðu skemmt hana töluvert en hægt var að ganga og hjóla yfir hana, þar til í nótt.
Rússar sprengdu Antonovsky-brúna sem liggur yfir Dnipro. Úkraínumenn höfðu skemmt hana töluvert en hægt var að ganga og hjóla yfir hana, þar til í nótt.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands segir allar hersveitir Rússa hafa hörfað frá vesturbakka Dniproár í Kherson-héraði í suðurhluta Úkraínu. Á undanhaldinu felldu Rússar brúnna yfir Dnipro. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, firrir sig allri ábyrgð á undanhaldinu.

Undanhaldinu lauk í nótt. Rússar halda því einnig fram að þeir hafi ekki misst einn hermann né skilið eitt einasta hergagn eftir á vesturbakkanum.

Útlit er fyrir að undanhaldið hafi heppnast vel.

Myndefni á samfélagsmiðlum sýndi íbúa á svæðinu rífa niður rússneska fána og skilti. Úkraínskir hermenn eru komnir til Kherson-borgar.

Sergei Surovkin, herforingi sem er yfir innrás Rússa í Úkraínu, og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, lýstu því yfir í beinni útsendingu á miðvikudaginn að Rússar myndu yfirgefa Kherson-borg og vesturbakka Dniproár og það yrði meðal annars gert til að bjarga lífum rússneskra hermanna.

Sjá einnig: Rússar segjast ætla að hörfa frá Kherson

Úkraínumenn óttuðust að Rússar væru að reyna að leiða úkraínska hermenn í gildru og lýstu yfir efasemdum um að Rússar ætluðu að hörfa í alvörunni.

Minna en tveir mánuðir eru liðnir frá því Vladimír Pútín, forseti Rússlands, skrifaði undir ólöglega innlimun á fjórum héruðum Úkraínu og þar á meðal Kherson. Forsetinn lýsti því þá yfir að Kherson tilheyrði nú Rússlandi og myndi gera það að eilífu. Fjölmargir rússneskir embættismenn hafa sótt borgina heim og slegið á svipaða strengi og Pútín en borgin er eina héraðshöfuðborgin sem Rússar hafa hernumið frá því innrás þeirra hófst í febrúar.

Sjá einnig: Bölsótaðist út í Vesturlönd

Frelsun Kherson-borgar gæti táknað mikil kaflaskipti í stríðinu og mikinn hernaðarlegarn og táknrænan sigur fyrir Úkraínumenn. AP fréttaveitan segir að það gæti gert úkraínska hernum kleift að herja á Rússa í Saporisjía-hérað og önnur svæði í Suður-Úkraínu. Þar á meðal er Krímskagi, sem Rússar innlimuðu ólöglega árið 2014.

Undanfarna daga hafa borist fregnir af því að Rússar hafi verið að grafa skotgrafir og byggja upp varnir á landamærum Krímskaga og Kherson-héraðs, sem þykir til marks um að forsvarsmenn rússneska hersins telji mögulegt að Rússar muni hörfa enn lengra til suðurs.

Pútín ber enga ábyrgð

Dmitry Peskov, talsmaður Pútins, sagði í morgun að ákvörðun um undanhald hefði verið tekin af Shoigu, varnarmálaráðherra, og að Pútín sjálfur hefði ekki komið að henni. Reuters hefur eftir Peskov að staða Kherson-héraðs hafi ekki breyst frá bæjardyrum Rússa séð. Héraðið tilheyri rússneska sambandsríkinu og ekkert muni breyta því.

Peskov sagði einnig að hin sértæka hernaðaraðger, sem Rússar kalla innrásina í Úkraínu, myndi halda áfram þar til markmiðum hennar yrði náð eða Úkraínumenn væru tilbúnir til viðræðna. Peskov sagði ljóst að yfirvöld í Kænugarði vildu ekki viðræður að svo stöddu og því héldi hernaðaraðgerðin áfram.

Sjá einnig: Vill að heimurinn þvingi Pútín til raunverulegra viðræðna

Markmið hernaðaraðgerðarinnar svokölluðu hafa lengi verið óljós og hefur innrásin borið keim hefðbundins landvinningastríðs. Hersveitir Rússa hafa þó ekki sótt svo máli skiptir á víglínum Úkraínu svo mánuðum skiptir.

Rússar hafa nú þurft að hörfa frá stórum svæðum í Úkraínu frá því innrásin hófst í febrúar og hefur rússneski herinn oft á tíðum verið harðlega gagnrýndur. Pútín hefur þó verið einangraður frá þeirri gagnrýni.

Sérfræðingar sem vakta átökin í Úkraínu og Rússland segja líklegt að ákvörðunin um undanhald frá Kherson hafi verið sýnd í beinni útsendingu hafi verið tekin svo gagnrýninni vegna hennar yrði beint að Shoigu og Surovkin.

Málpípur ríkisstjórnarinnar í Rússlandi hafa sagt ákvörðunina erfiða en að treysta þurfi herforingjum Rússlands til að taka réttar ákvarðanir. Í frétt New York Times segir að í ríkismiðlum Rússlands sé talað um Kherson-tilfærsluna eða enduruppbyggingu hersveita.

Neitaði að tjá sig

Það vakti þó athygli í gær þegar þáttastjórnandinn Andrei Norkin sagði í sjónvarpsþætti sínum að hann ætlaði ekki að tjá sig um undanhald hersins í Kherson. Norkin sagði að ástæðan væri sú að hvort sem hann sagðist styðja ákvörðunina eða gagnrýna hana, myndi hann brjóta rússnesk lög.

Ef hann styddi ákvörðunina væri hann að brjóta lög varðandi fullveldi Rússlands og landamæri þeirra. Ef hann gagnrýndi ákvörðunina væri hann að brjóta lög sem banna það að gagnrýna herinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×