Í fréttum Stöðvar 2 og þættinum Um land allt var Þorsteinn Sigmundsson, bóndi í Elliðahvammi, heimsóttur. Það voru bara nokkrir sumarbústaðir við sunnanvert Elliðavatn þegar Þorsteinn og eiginkona hans, Guðrún Alísa Hansen, hófu þar búskap árið 1964. Þorsteinn segir að þá hafi allt snúist um sauðkindina.

„Ég var með kindur hérna, átti nokkrar kindur. Ég nennti því nú ekki of lengi. Það var svo mikið vesen í kringum þetta að smala þessu hérna uppi á Hellisheiði,“ segir Þorsteinn.
Þau ákváðu í staðinn að fara í eggja- og kjúklingaframleiðslu. Núna er byggðin í Kópavogi komin þétt upp að lögbýlinu Elliðahvammi. Þorsteinn segist samt ennþá teljast bóndi.
„Já, ég er bóndi í borg. Í Kópavogi. Þetta er eiginlega eina starfandi býlið í Kópavogi. Vatnsendi líka,“ segir Þorsteinn.

Í Elliðahvammi eru seld egg beint frá býli en varphænurnar eru hátt í tíu þúsund talsins, að sögn Þorsteins, en einnig segist hann framleiða einhver hundruð tonn af kjúklingakjöti á ári.
-Er hægt að vera bóndi í borg?
„Já, já, já. Sko, meirihlutinn af öllum matvælum Íslendinga er framleiddur í Reykjavík. Menn gleyma því.
Á Kjalarnesinu er stærsta eggjabúið og stærsta svínabúið. Og í Mosfellssveit. Kjúklingaræktin er þar meira og minna. Þetta er allt meira og minna í Reykjavík.
Og svo garðyrkjustöðvarnar. Uppi á Lambhaga. Þetta er allt í Reykjavík. Þetta er ekki allt bara úti á landi.
Ég held að það sé stór hluti af matvælum, landbúnaðarvörunum, framleiddur hérna á stór-höfuðborgarsvæðinu,“ segir Þorsteinn Sigmundsson, bóndi við Elliðavatn.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Þátturinn Um land allt um Elliðavatn verður endursýndur á Stöð 2 á sunnudag klukkan 15:05. Hér má sjá fimm mínútna kafla úr þættinum:
Síðari þátturinn um Elliðavatn og vatnasvið þess er á dagskrá Stöðvar 2 á mánudagskvöld. Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins: