Volodomír Selenskí Úkraínuforseti segir að rannsakendur hafi nú fundið sannanir fyrir því að Rússar hafi framið að minnsta kosi 400 stríðsglæpi í Kherson héraði þaðan sem þeir hafa nú hörfað.
Forsetinn sagði í daglegu ávarpi sínu í nótt að úkraínskar hersveitir hafi fundið lík af hermönnum en einnig almennum borgurum á svæðinu. Hann lofaði því einnig að þeir sem beri ábyrgð á ódæðunum verði sóttir til saka.
Rússar hafa ávallt neitað því að hermenn þeirra skjóti almenna borgara en fjölmargar sannanir virðast um hið gagnstæða og frá upphafi innrásar þeirra hafa fjöldagrafir fundist í Bucha, Izyum og í Maríupól.