Fótbolti

H-riðill á HM í Katar: Fýlustrumpurinn mætir á HM í fimmta sinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur haft allt á hornum sér að undanförnu.
Cristiano Ronaldo hefur haft allt á hornum sér að undanförnu. getty/David S. Bustamante

Luis Suárez endurnýjar kynnin við Ganverja í H-riðli heimsmeistaramótsins í Katar. Cristiano Ronaldo dreymir um að stimpla sig út af HM með stæl og Son Heung-min og félagar í Suður-Kóreu ætla sér að komast upp úr riðlinum

Vísir telur niður í heimsmeistaramótið í Katar sem hefst 20. nóvember næstkomandi. Í síðustu viku og næstu daga tökum við fyrir einn riðil í keppninni á hverjum degi og að þessu sinni er það H-riðillinn sem fær á sig sviðsljósið.

Ronaldo hefur verið mikið milli á tannanna á fótboltaáhugafólki undanfarna daga eftir viðtalið fræga við Piers Morgan. Flestir eru á því að Ronaldo hafi skorað eitthvert rosalegasta PR-sjálfsmark sögunnar með viðtalinu og Portúgalanum veitti ekkert af jákvæðri athygli, til dæmis fyrir góða frammistöðu á sínu fimmta, og væntanlega síðasta, HM.

Þjóðirnar í H-riðli:

  • Portúgal er á sínu áttunda HM og því sjötta í röð
  • Úrúgvæ er á sínu 14. HM og því fjórða í röð
  • Suður-Kórea er á sínu 11. HM og því tíunda í röð
  • Gana er á sínu fjórða HM og því fjórða í röð

--

Besti árangur þjóðanna í H-riðli í HM sögunni:

  • Portúgal: 3. sæti (1966)
  • Úrúgvæ: Tvisvar sinnum heimsmeistari (1930, 1950)
  • Suður-Kórea: 4. sæti (2002)
  • Gana: Átta liða úrslit (2010) 

Ronaldo komst í undanúrslit á sínu fyrsta HM (2006) en hefur ekki unnið leik í útsláttarkeppni mótsins síðan þá og öll sjö mörk hans á HM hafa komið í riðlakeppninni. Skori hann í Katar verður hann sá fyrsti í sögunni til að skora á fimm heimsmeistaramótum.

Ronaldo hefur sennilega aldrei verið með jafn góða meðreiðasveina og núna en portúgalska liðið er ótrúlega vel mannað í öllum stöðum. Portúgal þurfti samt að fara í umspil um sæti á HM og tilfinningin er að Fernando Santos nái ekki janf miklu út úr liðinu og ætti að vera hægt miðað við mannskap.

„Markvarslan“ fræga hjá Luis Suárez í leik Úrúgvæ og Gana í átta liða úrslitum á HM í Suður-Afríku 2010.getty/Michael Steele

Luis Suárez er sennilega óvinur ganverska ríkisins númer eitt eftir að hann varði með hendi á línu í uppbótartíma framlengingar í leik Úrúgvæ og Gana í átta liða úrslitum HM 2010. Asamoah Gyan klúðraði vítaspyrnunni og Úrúgvæar unnu svo vítakeppnina og fóru áfram. Úrúgvæ og Gana mætast nú aftur á HM. Gyan er hættur í landsliðinu en Suárez er enn í nokkuð góðu fjöri.

Suárez, Edinson Cavani, Diego Godín, Martín Cáceres og Fernando Muslera er enn eftir úr liðinu sem komst í undanúrslit á HM 2010 og varð Suður-Ameríkumeistari árið eftir. HM í Katar verður að öllum líkindum svanasöngur þessarar kynslóðar og lyklavöldin færast væntanlega til leikmanna á borð Federico Velvarde, Ronald Arújo og Darwin Núnez eftir mótið. 

Svona komust þjóðirnar í H-riðli á HM:

  • 1. febrúar 2022: Suður-Kórea varð í 2. sæti í A-riðli 3. umferðar í undankeppni Asíu
  • 24. mars 2022: Úrúgvæ varð í 3. sæti í Suður-Ameríkuriðlinum
  • 29. mars 2022: Portúgal komst áfram úr umspili undankeppninnar í Evrópu
  • 29. mars 2022: Gana komst áfram úr 3. umferð undankeppninnar í Afríku

--

Þjóðirnar á nýjasta styrkleikalista FIFA:

  • 9. sæti - Portúgal
  • 14. sæti - Úrúgvæ
  • 28. sæti - Suður-Kórea
  • 61. sæti - Gana

Úrúgvæ er líka komið með nýjan þjálfara en hinum aldna Óscar Tabárez var skipt út í fyrra þegar það stefndi í að hann myndi ekki koma úrúgvæska liðinu til Katar. Diego Alonso tók við, kom Úrúgvæ á HM og liðið hefur unnið sjö af níu leikjum undir hans stjórn. Úrúgvæar hafa komist upp úr riðlinum á síðustu þremur heimsmeistaramótum, gera það væntanlega núna og eru með lið sem getur valdið usla.

Suður-Kórea er fastagestur á HM en hefur aðeins tvisvar sinnum komist upp úr riðlinum í ellefu tilraunum. Suður-Kóreumenn töpuðu fyrstu tveimur leikjum sínum á HM í Rússlandi en unnu Þjóðverja í lokaleik sínum og komu þar með í veg fyrir að heimsmeistararnir gætu varið titil sinn.

Son Heung-Min kinnbeinsbrotnaði í leik Tottenham gegn Marseille í Meistaradeild Evrópu á dögunum. Hann fór í aðgerð og hefur æft með andlitsgrímu.getty/Chung Sung-Jun

Líklega eru fá lið á HM jafn háð einum leikmanni og Suður-Kórea er háð Son. Suður-kóreskir stuðningsmenn tóku eflaust andköf þegar hann meiddist í leik með Tottenham á dögunum en hann hefur gengist undir aðgerð og verður með í Katar.

Ganverjar komust ekki upp úr riðlinum í Afríkumótinu í Kamerún fyrr á árinu og ráku í kjölfarið Serbann Milovan Rajevac. Við starfi hans tók Otto Addo og undir hans stjórn komst Gana á HM með því að skora mark á útivelli í umspilsleikjum gegn Nígeríu.

Hægri bakvörðurinn Tariq Lamptey ólst upp á Englandi og spilaði með yngri landsliðum Englendinga. Fyrr á þessu ákvað hann að spila fyrir Gana og hefur leikið tvo A-landsleiki fyrir þjóðina.getty/ANP

Gana er lægst skrifaðasta liðið á HM, allavega miðað við heimslistann (61. sæti), og þykir ekki líklegt til afreka í Katar. En til að vænka hag sinn hafa Ganverjar fengið leikmenn á borð við Inaki Williams (Athletic Bilbao) og Tariq Lamptey (Brighton) til að spila fyrir landsliðið.

Thomas Partey er algjör lykilmaður hjá Gana og Ayew-bræðurnir, André og Jordan, eru enn í stóru hlutverki. André er sá eini sem er eftir úr ganverska liðinu sem hefði komist í undanúrslit HM 2010 ef ekki hefði verið fyrir inngrip Suárez. 

Fernando Santos er sá eini sem hefur unnið stóran titil með portúgalska landsliðið.getty/Gualter Fatia

Þjálfarar liðanna í H-riðlinum:

Portúgal - Hinn 68 ára Fernando Santos hefur stýrt portúgalska landsliðinu síðan 2014. Gerði það að Evrópumeisturum 2016 og Þjóðadeildarmeisturum 2019.

Úrúgvæ - Hinn 47 ára Diego Alonso tók við úrúgvæska landsliðinu í desember 2021. Var þar áður þjálfari Inter Miami í Bandaríkjunum.

Suður-Kórea - Hinn 53 ára Paolo Bento var ráðinn landsliðsþjálfari Suður-Kóreu eftir HM 2018. Var áður landsliðsþjálfari Portúgals og stýrði liðinu á EM 2012 og HM 2014.

Gana - Hinn 47 ára Otto Addo var ráðinn þjálfari ganverska landsliðsins til frambúðar eftir að það vann Nígeríu í umspili um sæti á HM. Var áður aðstoðarþjálfari landsliðsins.

Bernardo Silva á ferðinni í vináttulandsleik Portúgals og Nígeríu. Portúgalir unnu leikinn með fjórum mörkum gegn engu.getty/Pedro Fiúza

Stærstu stjörnurnar:

Cristiano Ronaldo (Portúgal) - 37 ára sóknarmaður Manchester United. Einn besti leikmaður allra tíma en hefur ekki átt góðu gengi að fagna í vetur. Er á sínu fimmta heimsmeistaramóti og er markahæsti landsliðsmaður sögunnar með 117 mörk.

Bernando Silva (Portúgal) - 28 ára miðjumaður Manchester City. Hefur verið lykilmaður hjá City síðan hann kom frá Monaco 2017. Hefur fjórum sinnum orðið enskur meistari og einu sinni franskur meistari.

Luis Suárez (Úrúgvæ) - 35 ára framherji Nacional í Úrúgvæ. Markahæstur í sögu úrúgvæska landsliðsins með 68 mörk og keppir á HM í fjórða sinn. Hefur orðið meistari í þremur löndum og vann Meistaradeild Evrópu með Barcelona 2015.

Federico Valverde (Úrúgvæ) - 24 ára miðjumaður Real Madrid. Ómissandi hluti af liði Real Madrid sem varð Spánar- og Evrópumeistari á síðasta tímabili. Hefur byrjað þetta tímabil af krafti og skorað glæsileg mörk.

Son Heung-min (Suður-Kórea) - Þrítugur sóknarmaður Tottenham. Fyrirliði og langbesti leikmaður suður-kóreska landsliðsins. Var markahæstur í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili með 23 mörk.

Kim Min-jae (Suður-Kóreu) - 26 ára varnarmaður Napoli. Hefur átt frábæra innkomu í lið Napoli eftir að hann var keyptur frá Fenerbache í sumar. Háxavinn miðvörður sem er ógnarsterkur í loftinu.

Thomas Partey (Gana) - 29 ára miðjumaður Arsenal. Hefur spilað einkar vel fyrir Skytturnar sem eru á toppi ensku úrvalsdeildarinnar. Hefur skorað fjórtán mörk í fjörtíu landsleikjum.

André Ayew (Gana) - 32 ára framherji Al-Sadd í Sádí-Arabíu. Á leið á sitt þriðja heimsmeistaramót og er leikjahæstur í sögu ganverska landsliðsins með 110 leiki. Sonur Abedis Pele sem er jafnan talinn besti leikmaður Gana í sögunni.

Darwin Núnez hefur leikið þrettán landsleiki og skorað þrjú mörk.getty/Sebastian Frej

Fylgist með þessum:

Rafael Leao (Portúgal) - 23 ára sóknarmaður AC Milan. Var valinn besti leikmaður ítölsku úrvalsdeildarinnar þegar Milan vann hana á síðasta tímabili. Hefur byrjað þetta tímabil af miklum krafti. Hefur leikið átta landsleiki en á enn eftir að skora fyrir landsliðið.

Darwin Núnez (Úrúgvæ) - 23 ára sóknarmaður Liverpool. Keyptur til Liverpool á háa fjárhæð eftir að hafa skorað 34 mörk fyrir Benfica á síðasta tímabili. Hefur byrjað vel á Englandi og er kominn með níu mörk fyrir Rauða herinn. Verður arftaki Suárez og Edinson Cavani í framlínu Úrúgvæ.

Abdul Fatawu Issahaku (Gana) - átján ára sóknarmaður Sporting. Fæddur 2004 og er einn yngsti leikmaðurinn á HM. Sporting keypti hann frá Steadfast í heimalandinu fyrr á þessu ári. Skoraði sitt fyrsta landsliðsmark gegn Nígeríu í september í fyrra, þá aðeins sautján ára. Þykir einn efnilegasti leikmaður Afríku.

Al Rihla, boltinn sem verður notaður á HM í Katar.getty/Ryan Pierse

Leikirnir í H-riðli

  • Fimmtudagur 24. nóvember: Úrúgvæ - Suður-Kórea (Klukkan 13:00)
  • Fimmtudagur 24. nóvember: Portúgal - Gana (Klukkan 16:00)
  • Mánudagur 28. nóvember: Suður-Kórea - Gana (Klukkan 13:00)
  • Mánudagur 28. nóvember: Portúgal - Úrúgvæ (Klukkan 19:00)
  • Föstudagur 2. desember: Gana - Úrúgvæ (Klukkan 15:00)
  • Föstudagur 2. desember: Suður-Kórea - Portúgal (Klukkan 15:00)

Tengdar fréttir

E-riðill á HM í Katar: Gerast kraftaverk?

Stórþjóðirnar Spánn og Þýskaland eigast við í E-riðli heimsmeistaramótsins í Katar og eiga bæði harma að hefna eftir mikil vonbrigði á mótinu í Rússlandi fyrir fjórum árum. Margt óvænt þarf að gerast til að leið liðanna í 16-liða úrslit sé ekki greið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×