ESPN greinir frá þessu og segir að Ten Hag hafi verið á leið í frí með fjölskyldu sinni, nú þegar hlé er á dagskrá United vegna HM í Katar, en hafi frestað því til að takast á við Ronaldo-málið.
Miðað við félagaskiptagluggann síðasta sumar virðist ekki einfalt fyrir United að selja Ronaldo og spurning hvort að viðtalið sem hann fór í, þar sem hann beindi spjótum sínum að United með ýmsum neikvæðum hætti og setti út á núverandi og fyrrverandi knattspyrnustjóra sína, heilli forráðamenn annarra félaga.
Daily Mail greindi frá því að Ronaldo og umboðsmaður hans, Jorge Mendes, hefðu fundað með fulltrúum þýska stórveldisins Bayern München í síðustu viku en Christian Falk hjá Bild í Þýskalandi var fljótur að lýsa því yfir að það væri rangt og að Bayern hefði ekki áhuga á Ronaldo.
It is NOT TRUE that there was an meeting between Bayern and Jorge Mendes. @FCBayern is not interested in Ronaldo https://t.co/gYcUyQbJE8
— Christian Falk (@cfbayern) November 15, 2022
Samkvæmt ESPN telur Ten Hag að Ronaldo hafi gengið of langt með gagnrýni sinni á United og þeirri yfirlýsingu að hann bæri ekki virðingu fyrir stjóranum.
Ten Hag kom þessu á framfæri á fundi með yfrmönnum sínum Joel Glazer, Richard Arnold og John Murtough í gær.
Samningur Ronaldo er upp á yfir 500.000 pund í vikulaun og gildir til loka þessarar leiktíðar, en talið er ómögulegt að hann verði aftur í leikmannahópi United eftir HM í Katar.
Vill Ronaldo strax í burtu jafnvel þó að ekki fáist nýr leikmaður
Ten Hag hefur tvisvar refsað Ronaldo vegna hegðunar hans á þessari leiktíð, eftir að hann yfirgaf leikvanginn snemma í vináttuleik gegn Rayo Vallecano í sumar og þegar hann neitaði að koma inn á sem varamaður gegn Tottenham í síðasta mánuði.
Ronaldo hefur þrátt fyrir þetta áfram verið í plönum Ten Hag sem taldi sig vel hafa not fyrir hann á seinni hluta þessarar leiktíðar.
Ten Hag sagði hins vegar yfirmönnum sínum í gær að hann vildi ekki fórna einingunni í leikmannahópi sínum til þess eins að þóknast Ronaldo, og að jafnvel þó að ekki fengist nýr leikmaður í hans stað ætti félagið að losa sig við Ronaldo í janúar.