Arnar Daði Arnarsson, sérfræðingur Seinni bylgjunnar, þyrlaði upp ryki með ummælum sínum um Tryggva Garðar í hlaðvarpinu Handkastinu í síðustu viku og lenti í kjölfarið í deilum á Twitter.
„Þetta var helvíti þung vika fyrir Sérfræðinginn. Það var mikið álag á mér. Það fóru tveir til þrír dagar í þetta. Þetta var ekkert eðlilegt,“ sagði Arnar Daði í Handkastinu í gær.
Hrannar var gestur Arnars Daða í Handkastinu. Honum finnst Valsmenn taka alla umræðu um karlaliðið full nærri sér.
„Þetta var einn mesti stormur í vatnsglasi sem ég hef upplifað,“ sagði Hrannar. „Með Valsara, þú ert kominn með pabba þjálfarans brjálaðan á Twitter og gamla leikmenn. Valur er langbesta liðið á Íslandi, hvað varð um það að hugsa stórt og halda áfram með lífið. Það komu einhver smá ummæli um Tryggva Garðar og allt varð vitlaust.“
Valsmenn voru heldur ekki sáttir með það þegar Haukamaðurinn Stefán Rafn Sigurmannsson sagði að Valur hefði átt að vinna Ferencváros í Evrópudeildinni. Hann hafi spilað í Ungverjalandi og ekki fundist mikið til Ferencváros koma.
„Líka þegar Stefán Rafn kom með ummælin um ungverska liðið. Hann fékk bara Valsherinn á sig. Má bara ekki gagnrýna neitt sem Snorri Steinn [Guðjónsson, þjálfari Vals] gerir?“ sagði Hrannar. Arnar Daði skaut inn í að hann hafi vissulega verið í hópi þeirra sem lét Stefán Rafn heyra það.
Hrannar segist þó skilja af hverju Tryggvi Garðar fær jafn fá tækifæri og raun ber vitni. „Það eru örugglega góð rök fyrir því að Tryggvi Garðar spilar ekki meira. Hann fær alltaf á sig glórulausar tvær mínútur í hverjum leik,“ sagði Hrannar.
Arnar Daði segist standa við ummæli sín í Handkasti síðustu viku. „Ég var farinn að heyra umræðuna: guð, hvað ég væri ekki til í að vera þessi leikmaður núna og guð hjálpi honum þegar hann fær tækifærið. Hann sýndi í dag [í gær gegn Haukum] að hann er alveg nógu góður til að spila í þessari deild,“ sagði Arnar Daði.
Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.