Orkuveita Reykjavíkur ákvað að tæma Árbæjarlón og leyfa Elliðaám að renna nær óheftum í upprunalegum farvegum sínum haustið 2020. Íbúar í nágrenninu voru ósáttir og kærðu ákvörðunina. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að skipulagsfulltrúa borgarinnar hefði verið skylt að stöðva tæmingu lónsins á sínum tíma þar sem framkvæmdaleyfi hefði skort fyrir því.
Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu um að fylla Árbæjarlón aftur en meirihluti borgarstjórnar vísaði henni frá í dag.
Björn Gíslason, borgarfulltrúi flokksins, sem lagði tillöguna fram segir úrskurð úrskurðarnefndarinnar þýða að borginni beri að láta fylla í lónið sem stærsta hluthafanum í Orkuveitu Reykjavíkur og eiganda Elliðaánna. Meirihlutinn sé hins vegar í afneitun.
„Úrskurðarnefndin er búin að fella sinn dóm í þessu og hann er endanlegur,“ sagði Björn í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Spurður að því hvers vegna Elliðaárnar mættu ekki renna í sínum gamla farvegi í ljósi þess að Árbæjarlónið væri aðeins um hundrað ára gamalt sagði Björn að íbúar í eystri hverfum borgarinnar söknuðu lónsins. Þar hafi verið mikið fuglalíf og lónið hafi verið aðaláningarstaðurinn við árnar.
„Málið er einfaldlega það að þetta var óleyfisframkvæmd hjá Orkuveitunni og þessu ber að breyta. Þetta eru umhverfisspjöll sem hafa verið unnin hér í dalnum og því miður, meirihlutinn er að taka þátt í þessu með þessari afstöðu sinni,“ sagði Björn.