Skoðun

Verður ríkis­á­byrgð sett á þúsund milljarða?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Komi til þess að ný tilskipun Evrópusambandsins um innistæðutryggingar verði innleidd á Íslandi vegna aðildar landsins að EES-samningnum mun það að öllum líkindum þýða að ríkisábyrgð verði sett á bankainnistæður upp á um eitt þúsund milljarða króna. Málið snýst í raun um kjarna Icesave-málsins enda ljóst að hefði umrædd löggjöf verið í gildi hér á landi þegar málið kom upp á sínum tíma hefði það tapast.

Deilan um Icesave snerist sem kunnugt er um það hvort íslenzk ríkisábyrgð væri á bankainnistæðum í útibúum viðskiptabankanna þriggja, sem féllu haustið 2008, í Bretlandi og Hollandi á grundvelli eldri tilskipunar Evrópusambandsins um innistæðutryggingar. Fór svo að lokum að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu í byrjun árs 2013 að slík ábyrgð væri ekki fyrir hendi og sýknaði íslenzka ríkið.

Viðbrögð Evrópusambandsins við alþjóðlegu fjármálakrísunni fyrir rúmum áratug, og um leið Icesave-málinu, voru meðal annars þau að endurskoða löggjöf þess um innistæðutryggingar. Trygging vegna innistæðna var færð úr 20.000 evrum upp í 100.000 evrur (um 15 milljónir króna) á hvern einstakling í hverri fjármálastofnun og stjórnvöldum gert að tryggja að tryggingasjóðir stæðu við skuldbindingar sínar.

Telja ólíklegt að undanþága verði veitt

Hérlend stjórnvöld hafa hafnað ríkisábyrgð á innistæðum og upphaflega var einnig lagzt gegn því að tryggingin væri færð upp í 100.000 evrur. Árið 2020 var sú fjárhæð hins vegar innleidd í íslenzk lög. Greint var frá því í frétt Innherja í janúar á þessu ári að tryggðar innistæður hér á landi væru um eitt þúsund milljarðar króna, miðað við 100.000 evra trygginguna, sem samsvaraði um þriðjungi af landsframleiðslu.

Fram kom í ræðu sem Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi utanríkisráðherra, flutti á Alþingi í október 2019 að Íslendingar ættu eftir að tapa Icesave-málum framtíðarinnar yrði tilskipunin innleidd hér á landi. Greindi hann þinginu frá því að sérfræðingar Evrópusambandsins hefðu staðfest í svari við fyrirspurn íslenzkra stjórnvalda að þar á bæ væri litið svo á að tilskipunin fæli í sér ríkisábyrgð á innistæðum.

Fyrir vikið sagði Guðlaugur Þór að brýnt væri að Ísland fengi undanþágu frá tilskipuninni þar sem kerfislæg áhætta væri meiri hér á landi en í fjölmennari ríkjum. Sagðist hann hafa ítrekað lagt áherzlu á það á vettvangi EES-samstarfsins. Hins vegar kom fram í frétt mbl.is í janúar 2020 að samkvæmt sameiginlegu svari utanríkis- og fjármálaráðuneytisins væri ólíklegt að undanþága fengist vegna eðlis málsins.

Tekur ekki mið af íslenzkum hagsmunum

Tilskipunin hefur ekki enn verið tekin fyrir í sameiginlegu EES-nefndinni þar sem löggjöf frá Evrópusambandinu er formlega tekin upp í EES-samninginn. Takmarkaðar upplýsingar hafa fengizt frá stjórnvöldum um nánari stöðu málsins og þar með talið hvort engu að síður verði látið reyna á undanþágu frá tilskipuninni eða hvort til greina komi að beita svonefndu neitunarvaldi í samningnum í ljósi alvarleika málsins.

Málið er annars ágætlega lýsandi fyrir þann veruleika að Evrópusambandið er í raun alls staðar við stjórnvölinn þegar EES-samningurinn er annars vegar. Þannig er til að mynda undir sambandinu komið hvaða löggjöf þess fellur undir hann og enn fremur hvort veittar verði einhverjar undanþágur í þeim efnum. Þá getur einungis Evrópusambandið breytt þeirri löggjöf sem tekin hefur verið upp í samninginn.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara í dag þegar þau semja um milliríkjaviðskipti. Víðtækur fríverzlunarsamningur. Leið sem, ólíkt EES-samningnum og í enn ríkari mæli inngöngu í Evrópusambandið, felur ekki í sér vaxandi framsal valds yfir íslenzkum málum í gegnum regluverk sem er ekki okkar, tekur ekki mið af okkar hagsmunum og við getum ekki breytt.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×