Viðskipti innlent

Ís­lands­stofa sendi aug­lýsinga­skilti út í geim

Bjarki Sigurðsson skrifar
Ísland er oft á tíðum eins og önnur pláneta.
Ísland er oft á tíðum eins og önnur pláneta. Íslandsstofa

Ný herferð Íslandsstofu nær sérstaklega til þeirra hafa sett stefnu sína út í geim. Tilvonandi geimferðamenn eru hvattir til að heimsækja Ísland frekar. Til þess að auglýsa landið var auglýsingaskilti sent út í geim.

Herferðin ber nafnið Mission Iceland og eru skilaboð Íslandsstofu einföld. Ísland er betri áfangastaður en geimurinn. Stofnunin gerði auglýsingu með leikaranum Sveini Ólafi Gunnarssyni þar sem hann ber saman geiminn og Ísland.

Til að mynda er bent á að það sé ódýrara að ferðast til Íslands en geimsins, maturinn er ekki frostþurrkaður og nóg er af súrefni. „Ísland er um margt líkt Mars. Ef Mars hefði heita potta,“ segir í auglýsingunni.

„Við höfum séð auknar vinsældir geimferðalaga undanfarin tvö ár, og sumir telja jafnvel að þetta sé framtíðar áfangastaður hinna ofur-ríku. Við viljum setja þessa tískubylgju í samhengi og benda á að það er hægt upplifa ójarðneska fegurð hér á Íslandi og margt annað sem er einstakt í heiminum,“ er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, í tilkynningu.

Ísland er oft á tíðum eins og önnur pláneta.Íslandsstofa

Með aðstoð veðurloftbelgs var auglýsingaskilti sent út í geim. Skiltið hóf sig á loft skammt frá Kleifarvatni, reis í 35 kílómetra hæð. Þá sveif það austur með landinu þar til það kom aftur til jarðar tveimur tímum síðar skammt frá Mývatni. Þar sótt björgunarsveitin Stefán í Reykjahlíð skiltið.

Leikstjórn og framleiðsla myndbandsins var í höndum Allan Sigurðssonar og Hannesar Þórs Arasonar, í samstarfi við auglýsingastofuna Peel og bandarísku auglýsingastofuna SS+K sem er hluti af M&C Saatchi samsteypunni. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Íslandsstofu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×