Rafmyntakauphöllinn FTX óskaði í vikunni eftir gjaldþrotaskiptum. Eignir hallarinnar höfðu verið frystar degi áður og er starfsemi hennar og stofnanda hennar, Bankman-Fried, undir rannsókn yfirvalda í Bandaríkjunum.
Í kjölfar þess að óskað var eftir gjaldþrotaskiptum vék Bankman-Fried úr stóli forstjóra. Skömmu áður hafði önnur rafmyntakauphöll, Binance, sagst ætla að reyna að bjarga FTX. Þeir hættu þó við og lýstu því yfir að bókhald FTX væri einhvers konar svarthol.
Viðskiptavinir FTX eru margir hverjir með fjárhæðir í formi rafmynta bundnar inni í kauphöllinni. Engum þeirra hefur tekist að selja rafmyntir sínar enda allar eignir FTX frosnar. Þá eru þær fjárhæðir sem kauphöllin ætti að eiga einfaldlega ekki til.
Einn þeirra sem átti töluvert magn af rafmyntum í FTX, Edwin Garrison, hefur nú stefnt Bankman-Fried og ellefu manns sem tóku þátt í að auglýsa myntina.
Meðal þeirra sem Garrison stefnir eru ruðningsstjarnan Tom Brady, ofurfyrirsætan Gisele Bündchen og körfuboltamaðurinn Steph Curry. Öll þrjú birtust í auglýsingum á vegum FTX. Þá eru tenniskonan Naomi Osaka og fjárfestirinn Kevin O‘Leary einnig nefnd í stefnunni en þau voru sérstakir sendiherrar rafmyntarinnar.
Curb Your Enthusiasm-stjarnan Larry David er einnig hluti af stefnunni en hann lék í stærstu auglýsingu FTX sem sýnd var í hálfleikshléi Ofurskálarinnar í Bandaríkjunum.
Washington Post fjallaði um stefnuna í gær og tókst ekki að hafa samband við neinn af þeim stefndu. Í stefnunni er hvergi tekið fram hversu há upphæðin er sem Garrison krefst en hann nefnir einungis að þeir stefndu beri ábyrgð á milljarða tapi þeirra sem fjárfestu í kauphöllinni.