Fótbolti

Eto'o ofurbjartsýnn fyrir hönd Afríku og spáir því að Kamerún verði heimsmeistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Samuel Eto'o spáir því að Kamerúnar verði með HM-styttuna í sinni vörslu næstu fjögur árin.
Samuel Eto'o spáir því að Kamerúnar verði með HM-styttuna í sinni vörslu næstu fjögur árin. getty/Mohamed Farag

Samuel Eto'o, forseti knattspyrnusambands Kamerún, er ofurbjartsýnn á gott gengi Afríkuþjóðanna á HM í Katar. Hann hefur sérstaklega mikla trú á sínum mönnum í kamerúnska landsliðinu.

Fimm Afríkuþjóðir eru með á HM að þessu sinni og Eto'o spáir því að þær komist allar í útsláttarkeppnina, fjórar þeirra komist í átta liða úrslit og þrjár í undanúrslit.

Ef spá Eto'os rætist mætast Kamerún og Senegal í öðrum undanúrslitaleiknum og Frakkland og Marokkó í hinum. Og gamli markahrókurinn spáir því að Kamerúnar og Marokkóar eigist við í úrslitum þar sem hans menn muni hafa betur.

Spá Eto'os er nokkuð óhefðbundin. Hann spáir því meðal annars að Katar komist í átta liða úrslit með því að vinna England, Túnis sigri Argentínu í sextán liða úrslitunum og Marokkó leggi Spán að velli á sama stað í keppninni.

Afríkuþjóð hefur aldrei komist í undanúrslit HM. Ganverjar voru hársbreidd frá því 2010 en Luis Suárez skarst þá í leikinn eins og frægt er. Kamerún komst einnig í átta liða úrslit 1990 og Senegal 2002.

Eto'o lék 118 landsleiki á árunum 1997-2014 og skoraði 56 mörk. Hann er markahæstur í sögu kamerúnska landsliðsins. Eto'o var kjörinn forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins í desember á síðasta ári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×