Innlent

Kvöldfréttir Stöðvar 2

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Margrét Helga Erlingsdóttir les fréttir í kvöld.
Margrét Helga Erlingsdóttir les fréttir í kvöld. Vísir/arnar

Átta eru í haldi lögreglu í tengslum við hnífstunguárás sem gerð var á skemmtistaðnum Bankastræti club í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöldi. Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Þá herma heimildir fréttastofu að margir mannanna hafi starfað sem dyraverðir í miðbænum og hafi tengsl við öryggisfyrirtæki. Við fjöllum ítarlega um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 og ræðum við afbrotafræðing í beinni útsendingu.

Við segjum einnig frá dramtísku útspili Evrópusambandsins á loftslagsráðstefnunni COP27 í dag. Lokadagur ráðstefnunnar er í dag en hún dregst líkast til eitthvað á langinn – og nú er loftslagshamfarasjóður í sjónmáli.

Rekstur flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og tengdrar starfsemi verður ekki boðin út til einkaaðila í tíð núverandi ríkisstjórnar að sögn forsætisráðherra. Hópur þingmanna Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar lagt til að reksturinn verði boðinn út til einkaaðila.

Við tæpum einnig á skipulagsmálum en tæplega tvö hundruð íbúðir verða í fyrstu tveimur húsunum af fimm sem fyrirhugað er að reisa á Heklureitnum og verða tilbúnar eftir um þrjú ár. Skipulagið tengist einnig borgarlínu og uppbyggingu Hlemmtorgs í næsta nágrenni.

Þá tökum við púlsinn á íbúum Seyðisfjarðar sem margir eru áhyggjufullir í rigningartíð undanfarinna daga og verðum í beinni útsendingu frá nýjustu mathöll miðborgarinnar, sem opnuð var nú rétt fyrir fréttir. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×