Erlent

Stjarna að fæðast í stunda­glasi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frumstjarna að myndast í skýinu L1527 á mynd James Webb-geimsjónaukans.
Frumstjarna að myndast í skýinu L1527 á mynd James Webb-geimsjónaukans. NASA, ESA, CSA, and STScI. Image processing: J. DePasquale, A. P

Frumstjarna í hjarta stundaglasslaga gasskýs sem James Webb-geimsjónaukinn náði nýlega mynd af er sögð veita innsýn í hvernig sólin og sólkerfið okkar leit út í frumbernsku sinni. Hún er talin á fyrsta stigi í myndunarferli sínu. 

L1527 er rykský í stjörnumerkinu Nautinu en í hjarta þess er frumstjarna í fæðingu. Hún er enn ekki eiginleg stjarna þar sem kjarnasamruni er ekki hafinn heldur lítill, heitur gasklumpur með um tuttugu til fjörutíu prósent af massa sólarinnar okkar. Lögun hennar enn óstöðug þó að hún sé að mestu hnöttótt, að því er segir í tilkynningu á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Skýið er aðeins greinanlegt á innrauða sviðinu og var því upplagt viðfangsefni fyrir James Webb-geimsjónaukann sem var tekinn í notkun fyrr á þessu ári. Á mynd hans sem var birt í síðustu viku er frumstjarnan sjálf falin í hálsi stundaglassins. Efnisskífa í kringum hana sést sem dökk lína í gegnum hálsinn miðjan. Hún lýsir upp gasið fyrir ofan og neðan skífuna.

Blá og appelsínugul „glösin“ sýna hvernig glufur myndast í rykskýinu þegar efni þeytist frá frumstjörnunni og rekst á gas og ryk í nágrenninu. Litina má rekja til ryks á milli skýsins og sjónaukans. Rykið er þynnst þar sem það er blátt en appelsínugult þar sem það er þéttara fyrir.

Á myndinni sjást einnig vetnisþræðir sem þyrlast til vegna efnis sem frumstjarnan ryður frá sér. Óróinn af völdum stjörnunnar kemur í veg fyrir að aðrar stjörnur myndist annars staðar í skýinu. Því situr frumstjarnan ein að stórum hluta efnisins.

Stjörnufræðingar áætla að L1527 sé aðeins um 100.000 ára gamalt, afar ungt á stjarnfræðilegan mælikvarða. Frumstjarnan er því á fyrstu stigum myndunar sinnar. Rykið og gasið í skýinu laðast að miðjunni og vindur sig í kringum hana. Þannig myndast efnisskífan í kringum frumstjörnuna. Eftir því sem kjarninn verður massameiri og þéttist hækkar hitinn og kjarnasamruni hefst. Stjarnan er þá fullsköpuð.

Efnisskífan er sögð á stærð við sólkerfið okkar. Afgangurinn af henni gæti hæglega þést og myndað reikistjörnur með tíð og tíma. L1527 er því sagt gefa góða mynd af því hvernig sólkerfið okkar gæti hafa litið út fyrir milljörðum ára.


Tengdar fréttir

Webb endurgerði frægustu mynd Hubble

Hluti Arnarþokunnar sem hlaut nafnið Stöplar sköpunarinnar þegar Hubble-geimsjónaukinn gerði hann frægan fyrir meira en aldarfjórðungi er skarpari en nokkru sinni fyrr á mynd sem James Webb-geimsjónaukinn, arftaki Hubble, náði.

Sýndu mátt James Webb geimsjónaukans

Geimvísindastofnanir Bandaríkjanna, Evrópu og Kanada birtu í dag nýjar myndir úr James Webb geimsjónaukanum (JWST). Fyrsta myndin var opinberuð í gær en sjónaukinn er sá stærsti og besti sem hefur verið smíðaður og er talinn munu gjörbreyta stjarnvísindum á komandi árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×