Enginn glaður eftir leik Danmerkur og Túnis

Sindri Sverrisson skrifar
Varamaðurinn Andreas Cornelius afar nálægt því að koma Dönum yfir um miðjan seinni hálfleik.
Varamaðurinn Andreas Cornelius afar nálægt því að koma Dönum yfir um miðjan seinni hálfleik. Getty

Danmörk og Túnis gerðu markalaust jafntefli en fengu svo sannarlega bæði færi til að skora þegar liðin mættust í fyrstu umferð D-riðils á HM í fótbolta í Katar í dag. Leikurinn var sveiflukenndur og liðin svekkt í leikslok enda sjálfsagt bæði talið sig geta náð í afar dýrmætan sigur.

Túnisbúar voru talsvert líklegri til að skora í fyrri hálfleiknum en í þeim seinni tóku Danir, sem komust í undanúrslit á EM í fyrra, smám saman völdin og áttu meðal annars stórhættulega marktilraun í stöngina.

Búast má við að liðin keppist um að komast með Frökkum upp úr riðlinum en Frakkar byrja mótið klukkan 19 í kvöld á því að mæta Ástralíu sem fyrir fram er talið lakasta lið riðilsins.

Issam Jebali, fremsti maður Túnis í dag, kom boltanum í mark Dana um miðjan fyrri hálfleik en var réttilega dæmdur rangstæður. Flaggið fór hins vegar ekki á loft þegar hann komst í dauðafæri rétt fyrir hálfleik, og reyndi að vippa boltanum snyrtilega yfir Kasper Schmeichel, en Daninn varði stórkostlega.

Túnis virtist ætla að halda sama dampi í seinni hálfleik og komst snemma í afar álitlega skyndisókn þegar Laïdouni slapp einn gegn markverði en öflugir varnarmenn Danmerkur náðu að elta hann uppi.

Danir komu svo boltanum í markið skömmu síðar, þegar Andreas Skov Olsen skoraði, en Mikkel Damsgaard var kolrangstæður í aðdragandanum.

Christian Eriksen fékk fínt skotfæri þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka en skot hans var varið.

Danir komust hins vegar næst því að skora þegar varamaðurinn Andreas Cornelius sneiddi boltann af stuttu færi en í stöngina. Hann hefði þurft að komast millímetra framar með kollinn til að koma boltanum auðveldlega í netið.

Engin mörk voru hins vegar skoruð og því spennandi barátta fram undan hjá þessum liðum við að komast áfram í 16-liða úrslitin.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira