Handbolti

„Er ekkert sérstaklega góður í að gleðjast“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson hefur unnið fjórtán verðlaun sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta.
Þórir Hergeirsson hefur unnið fjórtán verðlaun sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. epa/Zsolt Czegledi

Þrátt fyrir að vera sigursælasti handboltaþjálfari landsliðssögunnar er Þórir Hergeirsson enn að læra að gleðjast yfir titlum. Hann segist þó vera að taka framförum á því sviði.

Á sunnudaginn varð norska kvennalandsliðið varð Evrópumeistari í fimmta sinn undir stjórn Þóris eftir sigur á Dönum, 27-25, í úrslitaleik. Þetta voru níundu gullverðlaun Þóris sem þjálfari norska liðsins og hann bætti því met Claude Onesta sem stýrði franska karlalandsliðinu til átta gullverðlauna á árunum 2001-16.

Þrátt fyrir alla velgengnina segist Þórir ekkert vera sérstaklega góður í því að gleðjast yfir árangrinum sem hann hefur náð en hann er að vinna í því.

„Ég hef verið að reyna að æfa mig í því að gleðjast yfir sigrum og mótum. En ég er ekkert sérstaklega góður í því,“ sagði Þórir í samtali við Vísi.

„Ég vil bara fara í ný verkefni og svo er það alltaf þannig að næsta medalía er alltaf sú mikilvægasta þegar maður er í þessu kapphlaupi. En ég hef aðeins reynt að æfa mig í að njóta og er aðeins betri í því en ég var í byrjun.“

Þórir leyfir sér að slaka aðeins á, allavega fram í næstu viku, en svo tekur við greining á nýafstöðnu Evrópumóti.

„Ég tek því rólega í nokkra daga en svo rúllar þetta aftur af stað. Þetta er alltaf sama ferlið. Eftir öll mót fer maður eins fljótt og hægt er í greiningu, kíkja á hvað við gerðum, tala við leikmenn og þjálfarateymið og fara yfir hvað við gerðum vel og hvað við getum bætt,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×