Erlent

Mót­mælir form­lega niður­stöðum kosninganna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fráfarandi forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro.
Fráfarandi forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro. Andressa Anholete/Getty Images)

Jair Bolsonaro, fráfarandi forseti Brasilíu hefur sent formlega kvörtun til kosningayfirvalda þar í landi þar sem hann mótmælir niðurstöðum forsetakosninganna í október.  Þar beið hann naumlega lægri hlut gegn Luiz Inacio „Lula“ da Silva.

Lula sigraði Bolsonaro með 50,9 prósent atkvæða gegn 49,1 prósenti atkvæða. Bolsonaro viðurkenndi aldrei formlega ósigur eftir að niðurstöður kosninganna urðu ljósar í lok síðasta mánaðar. Hann hafði þó heimilað það að undirbúningur að afhendingu valda (e. transition) yrði hafinn.

Í gær sendi Bolsonaro og teymi hans inn formlega kvörtun til kosningayfirvalda landsins þess efnis að sumar kosningavélar landsins hafi bilað. Öll atkvæði sem farið hafi í gegnum umræddar vélar ættu að vera úrskurðuð ógild.

Beiðnin er rökstudd með greiningu fyrirtækis sem flokkur Bolsonaro réð til verksins. Greiningin er sögð leiða í ljós að ef umrædd atkvæði yrðu fjarlægð myndi Bolsonaro hafa vinninginn.

Kosningayfirvöld hafa þegar gefið út af ef Bolsonaro vilji að beiðnin verði tekin fyrir þurfi að breyta henni svo hún nái einnig til fyrri umferðar kosninganna, en tvær umferðir þarf til að skera úr um niðurstöðurnar í forsetakosningum í Brasilíu.

Lula Da Silva hlaut yfir sextíu milljón atkvæða í kosningunum, sem er met í Brasilíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×