Gestir á næturklúbbnum Club Q í Colorado Springs náðu að snúa niður 22 ára gamlan byssumanninn eftir að hann réðst inn og hóf skothríð á laugardagskvöld. Þeir náðu þó ekki að koma í veg fyrir að hann skyti fimm manns til bana og særði fleiri. Klúbburinn er þekktur sem griðarstaður fyrir LGBTQ-samfélagið í borginni sem er að öðru leyti íhaldssöm, að sögn AP-fréttastofunnar.
Tilefni árásarinnar liggur enn ekki fyrir en yfirvöld hafa sagt að byssumaðurinn gæti verið ákærður fyrir morð og hatursglæp, Til þess að hægt væri að ákæra fyrir hatursglæp þyrftu alríkissaksóknarar að sýna fram á að byssumaðurinn hafi verið knúinn áfram af fordómum, til dæmis fyrir raunverulegri eða ætlaðri kynhneigð eða kyngervi fórnarlambanna.
Í nokkrum greinargerðum sem skipaðir verjendur byssumannsins hafa lagt fram til þessa segja þeir að hann sé kynsegin og notist við persónufornafnið „hán“. AP segir að verjendurnir leggi ekki frekar út af því atriði í greinargerðunum.
Byssumaðurinn heitir Anderson Lee Aldrich. Fram kom í gær að nafni háns var breytt þegar hán var táningur fyrir sex árum. Ástæðan sem hán gaf fyrir því var að hán vildi verja sig fyrir föður sínum sem hafði meðal annars beitt móður háns ofbeldi. Í umsókn um nafnabreytinguna var talað um að Aldrich vildi verja „sjálfan“ sig í karlkyni. Afi háns og amma lögðu umsóknina fram þar sem hán var undir lögaldri og þeir forráðamenn háns.
Faðir Aldrich er sagður bardagaíþróttamaður og klámleikari með langan sakaferil að baki. Hann hlaut meðal annars dóm fyrir að berja móður Aldrich bæði fyrir og eftir að hán fæddist. Um tíma var honum bannað að nálgast Aldrich og móður háns.
Aldrich á að koma fyrir dómara í fyrsta skipti í gegnum fjarfundarbúnað úr fangelsi í dag.