Innlent

Héraðs­sak­­sóknari rann­sakar mynd­bands­­lekann

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Í samtali við Vísi staðfestir Ólafur Þór að málið sé komið inn á borð héraðssaksóknara.
Í samtali við Vísi staðfestir Ólafur Þór að málið sé komið inn á borð héraðssaksóknara. Vísir/Vilhelm

„Þetta mál verður skoðað, það eru alveg hreinar línur,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari. Grunur leikur á að myndböndum af hnífaárásinni á Bankastræti Club á síðustu viku, hafi verið lekið úr gagnagrunni lögreglunnar. Í myndbandinu sést á tölvuskjá í tákn skráningakerfis lögreglunnar, Löke.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn staðfesti í samtali við fréttastofu að það líti allt út fyrir að myndbandinu hafi verið lekið af aðila innan lögreglunnar. Hann lítur málið alvarlegum augum. 

„Það er hér verið að dreifa trúnaðargögnum og rannsóknarupplýsingum úr málinu. Við þurfum bara að meta hvaða áhrif þetta hefur á rannsóknina. En við erum mjög óhress með að þetta hafi farið í dreifingu.“

Stækkunarglerið sem sést vinstra megin á skjánum er tákn skráningakerfis lögreglunnar, Löke.

Í samtali við Vísi staðfestir Ólafur að málið sé komið inn á borð héraðssaksóknara.

„Það var fólk sett í þetta strax í morgun. Þetta er komið inn á borð til okkar. Ef um er að ræða brot lögreglumanns í starfi þá eigum við rannsóknarforræði á því. Það þarf að fara í þetta með ákveðnum hætti. Þetta mál verður skoðað, en þetta er ennþá allt á byrjunarstigi.“

Ólafur segist ekki geta tjáð sig frekar um hvort myndbandinu hafa verið lekið af stjórnanda eða öðrum innan lögreglunnar sem hafa aðgang að LÖKE kerfinu eða TBR.

„En svo er líka spurning hvort það sé verið að taka þetta á tölvu viðkomandi eða hvort sá sem tekur þetta upp sé að nota tölvu einhvers annars.“

Þegar gagnaleki er af þessu tagi þá getur það haft áhrif á beina rannsóknarhagsmuni. Þess vegna er þetta litið alvarlegum augum. Það verður fólk sett í þetta til að komast til botns í þessu.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×