Fjölmargar athugasemdir voru gerðar við söluferlið í skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem fólust meðal annars í því að gagnsæi hafi skort og að jafnræði fjárfesta hafi ekki verið tryggt.
Þá vill meirihluti landsmanna, eða 61 prósent, að Alþingi setji á laggirnar rannsóknarnefnd til þess að skoða söluferlið. Ríkisstjórnin hefur talið ótímabært að ræða skipun slíkrar nefndar líkt og stjórnarandstaðan hefur kallað eftir. Einungis tólf prósent aðspurðra eru andvíg því að rannsóknarnefnd verði sett á fót.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins treysta ríkisstjórninni lang best til frekari bankasölu og segist yfir helmingur þeirra bera traust til ferlisins. Kjósendur hinna stjórnarflokkanna virðast hafa meiri efasemdir en yfir helmingur þeirra sem myndu kjósa Vinstri Græn og Framsókn segist treysta ríkisstjórninni illa í málinu.
Könnun Maskínu fór fram dagana 18. til 22. nóvember og svarendur voru 987 talsins.