Marokkó galopnaði F-riðilinn með sigri gegn Belgum Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar 27. nóvember 2022 15:00 Marokkó vann óvæntan sigur gegn Belgum í F-riðli og tylltu sér þar með á topp riðilsins. Ryan Pierse/Getty Images Marokkó vann mikilvægan 2-0 sigur er liðið mætti Belgíu í F-riðli heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu sem fram fer í Katar. Með sigrinum stökk marokkóska liðið á topp riðilsins. Fyrir leik var ljóst að Belgum nægði sigur til að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum. Marokkó mátti hins vegar helst ekki við því að tapa þar sem sigur Króata gegn Kanadamönnum síðar í dag myndi setja liðið í afar erfiða stöðu fyrir lokaumferðina. Belgarnir byrjuðu leikinn betur og héldu boltanum vel innan liðsins, án þess þó að skapa sér mikið af opnum marktækifærum. Það dró ekki til tíðinda fyrr en í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Marokkó fékk aukaspyrnu úti á hægri kanti. Hakim Ziyech tók spyrnuna og án þess að hafa viðkomu í nokkrum einasta leikmanni hafnaði hann í netinu. Eftir skoðun myndbandsdómara kom þó í ljós að Romain Saiss var rangstæður og hafði áhrif á Thibaut Courtois í marki Belga og markið því dæmt af. Staðan því enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks, en svipuð staða og í rangstöðumarkinu átti þó eftir að koma upp aftur. Á 73. mínútu fékk marokkóska liðið aðra aukaspyrnu úti á kanti. Í þetta sinn var spyrnan á vinstri kantinum og úr mun þrengra færi en Ziyech hafði skorað úr í fyrri hálfleiknum. Það kom þó ekki í veg fyrir það að Abdelhamid Sabiri léti vaða á markið. Courtois virtist sofandi á línunni og boltinn lak inn á nærstönginni, 1-0. Belgar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en áttu í stökustu vandræðum með að opna vörn Marokkó. Marokkóska liðið rak svo seinasta naglann í kistu Belga þegar Hakim Ziyech fékk boltann inni á vítateig, lék á Toby Alderweireld og fann Zakaria Aboukhlal sem kláraði færið vel. Niðurstaðan því 2-0 sigur Marokkó sem nú er með fjögur stig á toppi F-riðils, einu stigi meira en Belgar sem sitja í öðru sæti. Króatía og Kanada mætast svo síðar í dag í seinni leik riðilsins þar sem bæði lið þurfa á sigri að halda. HM 2022 í Katar Fótbolti
Marokkó vann mikilvægan 2-0 sigur er liðið mætti Belgíu í F-riðli heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu sem fram fer í Katar. Með sigrinum stökk marokkóska liðið á topp riðilsins. Fyrir leik var ljóst að Belgum nægði sigur til að tryggja sæti sitt í 16-liða úrslitum. Marokkó mátti hins vegar helst ekki við því að tapa þar sem sigur Króata gegn Kanadamönnum síðar í dag myndi setja liðið í afar erfiða stöðu fyrir lokaumferðina. Belgarnir byrjuðu leikinn betur og héldu boltanum vel innan liðsins, án þess þó að skapa sér mikið af opnum marktækifærum. Það dró ekki til tíðinda fyrr en í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Marokkó fékk aukaspyrnu úti á hægri kanti. Hakim Ziyech tók spyrnuna og án þess að hafa viðkomu í nokkrum einasta leikmanni hafnaði hann í netinu. Eftir skoðun myndbandsdómara kom þó í ljós að Romain Saiss var rangstæður og hafði áhrif á Thibaut Courtois í marki Belga og markið því dæmt af. Staðan því enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks, en svipuð staða og í rangstöðumarkinu átti þó eftir að koma upp aftur. Á 73. mínútu fékk marokkóska liðið aðra aukaspyrnu úti á kanti. Í þetta sinn var spyrnan á vinstri kantinum og úr mun þrengra færi en Ziyech hafði skorað úr í fyrri hálfleiknum. Það kom þó ekki í veg fyrir það að Abdelhamid Sabiri léti vaða á markið. Courtois virtist sofandi á línunni og boltinn lak inn á nærstönginni, 1-0. Belgar reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, en áttu í stökustu vandræðum með að opna vörn Marokkó. Marokkóska liðið rak svo seinasta naglann í kistu Belga þegar Hakim Ziyech fékk boltann inni á vítateig, lék á Toby Alderweireld og fann Zakaria Aboukhlal sem kláraði færið vel. Niðurstaðan því 2-0 sigur Marokkó sem nú er með fjögur stig á toppi F-riðils, einu stigi meira en Belgar sem sitja í öðru sæti. Króatía og Kanada mætast svo síðar í dag í seinni leik riðilsins þar sem bæði lið þurfa á sigri að halda.
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti
Uppgjörið: Króatía - Slóvenía 29-26 | Dagur stýrði Króötum til sigurs og sendi strákana okkar heim Handbolti