Innlent

Ruddist inn í íbúð í miðbænum og sofnaði

Samúel Karl Ólason skrifar
Töluverður erill var hjá lögregluþjónum í gærkvöldi og í nótt.
Töluverður erill var hjá lögregluþjónum í gærkvöldi og í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í gær tilkynning um mann sem hafði farið óvelkominn inn í íbúð í miðbænum. Þetta var klukkan sjö í gærkvöldi en þegar lögregluþjóna bar að garði var maðurinn sofandi í íbúðinni en hann hafði valdið einhverju tjóni þar.

Maðurinn var handtekinn og fluttur á lögreglustöð en samkvæmt dagbók lögreglu neitaði hann að segja til nafns og var því látinn gista fangageymslur.

Í dagbók lögreglunnar segir að töluverður erill hafi verið hjá lögregluþjónum í nótt.

Eftir klukkan eitt í nótt lögreglunni tilkynning um annan mann en sá neitaði að yfirgefa veitingastað. Lögregluþjónar þurftu að færa manninn út og var hann fluttur á lögreglustöð.

Þegar þangað var komið og afgreiðslu máls hans var lokið, neitaði maðurinn að fara af lögreglustöðinni. Hann var því látinn gista í fangageymslu.

Enn einn maður fannst sofandi í garði í miðbænum eftir klukkan þrjú í nótt. Lögregluþjónar reyndu ítrekað að fá upplýsingar um hver hann væri og hvar hann ætti heima en án árangurs. Hann var því einnig færður á lögreglustöð og látinn sofa úr sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×