Skoðun

Að virkja sig frá lofts­lags­vánni

Bjarni Bjarnason skrifar

Það er áríðandi, að mínu mati, að það samtal sem við eigum nú um orkumál og orkuskipti byggist á raunsæi og glöggum upplýsingum. Við erum einfaldlega farin að sjá til botns í hefðbundnum orkulindum okkar; vatnsafli og jarðvarma. Að á Íslandi megi hrista 16 teravattstundir (TWst) af rafmagni á ári fram úr erminni á tveimur næstu áratugum tel ég ekki eiga við rök að styðjast. Stefna stjórnvalda um jarðefnaeldsneytislaust Ísland árið 2040 er afar metnaðarfull. Markmiðið hlýtur samt sem áður að vera að eyða jarðefnaeldsneyti að fullu úr orkubúskap Íslands.

Rammaáætlun III

Eftir níu ára vinnu tókst Alþingi loksins nú í sumar að samþykkja Rammaáætlun III, áætlun um vernd landsvæða og nýtingu til orkuvinnslu. Nýlega var svo opnaður vefurinn orkuskipti.is þar sem sagt er að virkja þurfi 16 TWst á ári af rafmagni svo full orkuskipti verði gerleg. 16 TWst á ári er ígildi 80% aukningar þeirrar rafmagnsvinnslu sem fyrir er, sem við höfum byggt upp á einni öld. Til frekari glöggvunar á þessum stærðum er samanlögð rafmagnsnotkun allra fyrirtækja, heimila og stofnana í Reykjavík, Kópavogi og í Mosfellsbæ á einu ári um það bil ein TWst.

Myndin sýnir með bláum súlum til endanna núverandi vinnslugetu rafmagns í landinu. Græna súlan sýnir áætlaða vinnslugetu allra virkjanakosta í nýtingarflokki Rammaáætlunar III, gula súlan biðflokk áætlunarinnar og rauðu frádráttarsúlurnar er mat á því hversu mikið líklegt er að ekki fáist af rafmagni úr flokkunum. Lengst til hægri sést þá að, sé þetta mat rétt, vanti enn 7,5 TWst á ári til að ná þeim 16 TWst til viðbótar við núverandi vinnslu rafmagns sem orkuskiptin eru talin krefjast.

Hitaveitur verða að ganga fyrir

Frá bæjardyrum okkar hjá Orkuveitu Reykjavíkur séð er ljóst að ýmsir virkjanakostir sem fyrirtækið lagði til mats í ferli Rammaáætlunar III munu ekki verða nýttir til rafmagnsvinnslu heldur fyrir hitaveitur. Kostirnir eru misrannsökuð háhitasvæði í Henglinum og hitaveitan á höfuðborgarsvæðinu mun ganga fyrir um orku frá þeim. Um tveir þriðju hlutar þeirrar orku sem er að finna í nýtingarflokki Rammaáætlunar III eru jarðhitakostir og ég tel ekki óvarlegt að skera þann flokk í heildina niður um helming. Þetta eru jarðhitakostir sem eru ýmist lítt rannsakaðir og orkan þar óviss eða frátekin fyrir hitaveitur. Um þetta var fjallað nánar í fyrri grein um hitaveitur.

Biðflokkur Rammaáætlunar er í eðli sínu enn óvissari en nýtingarflokkurinn. Virkjanakostir eru settir í bið því það vantar gögn. Sumir kostirnir í biðflokki eru hugsanlega þannig að þeir útiloki hver annan. Þar eru jarðhitakostir sem eru nánast ókannaðir til orkuvinnslu og einnig verulega umdeildir kostir frá sjónarmiði náttúruverndar. Ég vel því að skera megi orkuvinnslu úr biðflokki niður um helming líka.

Virkjanakostir í Rammaáætlun duga ekki til

Sé þetta mat mitt rétt, að ekki sé von á nema um helmingi rafmagnsins úr nýtingar- og biðflokkum Rammaáætlunar, þýðir það viðbót við núverandi raforkuvinnslu upp á 8,5 TWst á ári. Enn vantar þá 7,5 TWst til að ná þessum 36 í heildina sem orkugeirinn telur þurfa til að útrýma jarðefnaeldsneyti og stefnir að því að ná á næstu 18 árum.

Íslendingar eru öðrum þjóðum ríkari af grænu rafmagni og að vissu marki endurnýjanlegu. Það höfum við nýtt til hagsbóta fyrir þjóðarbúið og til að auka lífsgæði þjóðarinnar. Orkuöryggi hér á landi er mikið þrátt fyrir válynd veður. Verð á jarðefnaeldsneyti er hins vegar háð duttlungum heimsmála hverju sinni.

Um 80% þess rafmagns sem við vinnum árlega fer í orkufrekan iðnað. Álver, eins og önnur mannanna ver, úreldast. Leiða má líkum að því að á næstu áratugum leggist af rekstur að minnsta kosti eins álvers og hugsanlega annars orkufreks iðnaðar í landinu. Þá getur sú 16 TWst þörf fyrir nýtt rafmagn, sem sýnd er á myndinni að ofan, breyst í einu vetfangi.

Mun viðbótin rata í orkuskiptin?

Samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum er ógerlegt að tryggja að nýtt rafmagn rati í orkuskiptin. Engu að síður er unnendum náttúru Íslands nánast stillt upp við vegg; annaðhvort virkjum við þessi reiðinnar býsn af rafmagni eða aukum á loftslagsvána. Það er ekki gott.

Þetta er sérstaklega áberandi í umræðu um nýjasta orkukost landsmanna, vindorkuna. Um hana fjallar næsta grein.

Höfundur er forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur.


Tengdar fréttir

Hitaveitan þarf 1.200 megavött í viðbót

Það kemur sumum á óvart, sérstaklega þeim sem halda að orkuskipti snúist bara um rafmagn, að aflið í hitaveitum Veitna er næstum tvöfalt meira en í Kárahnjúkavirkjun. Mælt í megavöttum er afl Fljótsdalsstöðvar 690 MW en samanlagt afl þeirra hitaveitna sem Veitur starfrækja á sunnan- og vestanverðu landinu er nú um 1.200 MW. Og aflþörfin mun vaxa hratt.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×