Mikið er um fundarhöld hjá ríkissáttasemjara í dag þar sem fulltrúar Starfsgreinasambandsins, Landsambands verslunarmanna, VR og iðnaðarmanna voru mættir í morgun ásamt fulltrúum Samtaka atvinnulífsins.
Efling, sem hingað til hefur stefnt á samning til þriggja ára, breytti um stefnu í morgun og býður nú skammtímasamning með 56.700 króna launahækkun auk fimmtán þúsund króna framfærsluuppbótar.
Þetta er langt umfram það sem rætt hefur verið við önnur félög samkvæmt heimildum fréttastofu. Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gefur ekki mikið fyrir þetta útspil Eflingar.
Þetta er all veruleg hækkun sem verið er að fara fram á, er einhver möguleiki að ná sáttum um slíkar upphæðir?
„Mér finnst þú orða þetta ágætlega í þinni spurningu.“
Þannig að þér þykir ekki líklegt að þetta yrði niðurstaða?
„Ég myndi kjósa að fara fyrst yfir það með áttatíu manna samninganefnd Eflingar áður en ég deili því með þér,“ sagði Halldór Benjamín.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR telur þetta útspil Eflingar hins vegar skiljanlegt í ljósi verðbólgunnar og verðhækkana.
„Ég held að þetta tali bara ágætlega inn í þann raunveruleika sem félagsfólk Eflingar er í. Og mestmegnið af venjulegu fólki sem er að taka á sig miklar verðlagshækkanir, aukinn húsnæðiskostnað og svo framvegis,“ sagði Ragnar Þór fyrir samningafund í morgun.
Vilhjálmur Birgisson formaður Starfsgreinasambandsins segir þá ábyrgð hvíla á samningafólki að semja um launahækkanir til félagsmanna eins fljótt og hægt væri.
„Það var markmiðið þegar við lögðum af stað í þessa vegferð að ná að klára kjarasamningana fyrir mánaðamót. Ég veit ekki hvort að það takist. Ég get ekki svarað því hér,“ segir Vilhjálmur. Aðkoma stjórnavalda að samningunum skipti líka miklu máli en þetta ætti að skýrast á næstu dögum.
Halldór Benjamín er eins og Vilhjálmur vongóður um að samningar takist fyrir mánaðamót.
„Öll okkar markmið og tillögur hafa miðað að því að ná því marki. Hins vegar tek ég líka undir það sem ég hef heyrt frá félögum mínum í verkalýðshreyfingunni; við verðum að líta til verðbólgunnar. Hún er raunveruleg ógn við heimilin og fyrirtækin í landinu. Að því leytinu til og þessu virtu fer ég ágætlega bjartsýnn inn í daginn,“ segir Halldór Benjamín.
Formaður VR er hins vegar ekki eins bjartsýnn á að samningar takist fyrir mánaðmót.
„Ég held að það sé alveg útilokað miðað við þær hugmyndir sem ég hef heyrt frá SA. Ekki nema það sé einhver meiriháttar viðhorfsbreyting sem kemur fram núna á þessum fundi eða samtali næstu klukkutíma. Þá held ég að það sé í rauninni alveg útilokað,“ segir Ragar Þór Ingólfsson.