Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Valur 75-84 | Valskonur fyrstar til að leggja Keflavík að velli Jakob Snævar Ólafsson skrifar 4. desember 2022 22:31 Valur - Keflavík. Subway deild kvenna. Vetur 2021-2022. Körfubolti. Það var hart barist þegar Keflavík og Valur mættust í 11. umferð Subway-deildar kvenna, í Blue-höllinni í Keflavík. Skemmst er frá því að segja að Valur náði strax forystunni og lét hana aldrei af hendi fyrir utan eitt skipti í fyrsta leikhluta þar sem Keflavík komst um skamma hríð yfir, 6-5. Munurinn hélst yfirleitt í kringum 10 stig allan leikinn, lokatölur: Keflavík 75-Valur 84. Keflavík beið þar með sinn fyrsta ósigur í deildinni á þessari leiktíð en staða liðanna í deildinni er þó enn óbreytt. Keflavík er enn í efsta sæti með 20 stig og Valur í því þriðja, með 16 stig, eftir að liðið í öðru sæti, Haukar vann sinn leik í þessari umferð. Valskonur tóku strax forystuna í fyrri hálfleik og héldu henni fram til hálfleiks fyrir utan þennan stutta tíma sem Keflavík hafði eins stigs forystu. Þær voru með 1-4 stiga forystu þar til 1. leikhluti var hálfnaður þá náðu þær að auka forskotið í tæp 10 stig og voru yfir 11-21 eftir leikhlutann. Keflavík herti pressuvörn sína í öðrum leikhluta en náði muninum mest niður í 6 stig en Valskonur juku hann í 9 stig fyrir hálfleik, 38-47. Valur spilaði góða vörn allan hálfleikinn og Keflavíkurkonur hittu ekki eins vel og þær hafa gert fyrr í vetur. Í raun var seinni hálfleikurinn eins og sá fyrri. Valskonur héldu Keflvíkingum í um það bil 10 stiga fjarlægð allt fram til loka leiksins. Valskonur spiluðu aggressíva vörn og mörg skota Keflavíkur voru úr erfiðum færum. Í nokkur skipti náðu Valsarar að koma í veg fyrir að Keflavík næði skoti áður en skotklukkan rann út. Keflvíkingar fóru nokkrum sinnum illa að ráði sínu þegar tækifæri gafst til að minnka muninn frekar og misstu boltann eftir slæmar sendingar sín á milli. Aldrei náðist að gera áhlaup á Valsara og því fór sem fór. Eftir þriðja leikhluta var staðan 54-65 og í lok þess fjórða náði Keflavík aðeins að minnka muninn um tvö stig, 75-84. Fyrsti ósigur þeirra á þessu tímabili því staðreynd. Af hverju vann Valur? Í stuttu máli sagt með mjög góðum varnarleik. Þær náðu oft að gera Keflvíkingum afar erfitt fyrir í sóknarleik þeirra. Að sama skapi var varnarleikur heimakvenna ekki eins árangursríkur þótt þær reyndu að beita sinni frægu pressuvörn. Þegar þær náðu að þvinga fram mistök hjá gestunum náðu þær yfirleitt ekki að nýta sér það til fullnustu. Valskonur hittu vel, sérstaklega úr þriggja stiga skotum, 42% á móti 28% hittni Keflvíkinga. Minna munaði á hittni liðana úr tveggja stiga skotum en þar hittu Valskonur einnig betur. Körfubolti er ekki flókinn leikur. Það lið sem hittir oftar ofan í körfuna vinnur. Hverjar stóðu upp úr? Í liði Vals stóð Dagbjört Dögg Karlsdóttir upp úr en hún var stigahæst með 18 stig og skoraði þau öll úr þriggja skotum. Hún hitti úr 6 af 8 skotum fyrir utan línuna. Kiana Johnson kom næst með 16 stig og 11 stoðsendingar en það er ekki oft sem hún er ekki stigahæst í Valsliðinu. Ásta Júlía Grímsdóttir var sterk undir körfunni og tók 11 fráköst. Í liði Keflavíkur stóð Daniela Wallen Morillo upp úr með 27 stig og 10 fráköst. Hvað gekk illa? Í raun gekk allt illa hjá Keflavík. Sóknarleikurinn var brösóttur og heimakonur náðu aldrei að finna lausnir á varnarleik gestanna. Varnarleikur Keflvíkinga gekk heldur ekki vel og Valskonur voru með 42% nýtingu í þriggja stiga skotum sem þær fengu oft að taka óáreittar. Allt byrjunarlið Vals skoraði 10 stig eða meira í leiknum en aðeins tveir byrjunarliðsmenn hjá Keflavík, Daniela Wallen Morillo og Anna Ingunn Svansdóttir. Keflavíkurliðið þurfti því augljóslega meira framlag frá fleiri leikmönnum Hvað gerist næst? Næsta umferð verður spiluð næstkomandi miðvikudag, 7. desember, en þá fær Valur Grindavík í heimsókn á Hlíðarenda en Keflavík sækir Breiðholtið heim og mætir sigurlausu botnliði ÍR. Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals.Vísir/Bára Dröfn „Þær voru bara töffarar í dag“ Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með sigurinn og þakkaði hann helst varnarleik og samheldni síns liðs: „Við vorum hrikalega fókuseraðar í 40 mínútur fannst mér.“ Ólafur sagðist hafa rætt við sína leikmenn um að Keflavík væri með frábært lið og myndi gera áhlaup og ná „runni“, gera nokkrar körfur í röð. Dagskipunin var sú að hugsa ekki um körfur Keflvíkinga heldur róa öllum árum að því að koma í veg fyrir næstu körfu. Aðspurður um hvað í þessum leik hann og liðið gæti tekið með sér í næstu leiki endurtók Ólafur áherslu sína á varnarleikinn: „Svona varnarleikur, svona áræðni. Þær voru bara töffarar í dag og það er svolítið það sem okkur hefur vantað.“ Valur vann leikinn án nýrra leikmanna liðsins, Emblu Kristínardóttur og Hildar Bjargar Kjartansdóttur. Ólafur var fullur bjartsýni eftir leik og sagði að þegar þær byrjuðu að spila með liðinu myndi vegferð Valsliðsins að Íslandsmeistaratitlinum styrkjast enn frekar. Ætlunin væri að lyfta liðinu upp úr þriðja sætinu. Hann fór ekkert í grafgötur með að stefnt væri á titilinn: „Að sjálfsögðu annars værum við ekki hérna.“ Dagbjört Dögg Karlsdóttir.Vísir/Hulda Margrét Hitti svona vel með því að hugsa sem minnst Dagbjört Dögg Karlsdóttir var stigahæst í liði Vals í kvöld með 18 stig sem komu öll úr þriggja stiga skotum en hún hitti úr 6 af 8 skotum sem er 75% nýting og verður að teljast ansi gott. Þegar hún var spurð hvernig hún fór að því að hitta svona vel var svarið: „með því að hugsa sem minnst, held ég. Þá dettur þetta oftast.“ Hún sagði að upplagið frá Ólafi þjálfara hefði verið að spila eins harða vörn og mögulegt var. Ætlunin hefði verið að mæta þeim harða varnarleik sem Keflavíkurliðið hefur verið þekkt fyrir í vetur með því að svara í sömu mynt. „Við höfum verið að reyna að bæta okkar varnarleik með því að ýta svolítið liðunum í einhverja vitleysu.“ Ætlunin væri að halda því áfram og gera það enn betur í næstu leikjum. Dagbjört var sammála því að það væri enn frekari ástæða til bjartsýni um að Valsliðið gæti spilað ennþá betur eftir að það hefði sigrað efsta lið deildarinnar án nýju leikmannanna tveggja, Emblu og Hildar. „Nú allt fram að þessum leik höfum við alltaf talað um við eigum alveg hellings inni. Mér fannst það svolítið skína í dag að við vorum bara að sýna hvernig okkar leikur er og hvernig við eigum að vera að spila körfubolta. Þessi frammistaða og svo erum við að fá tvo mjög öfluga og góða leikmenn. Ég held að það séu bara mjög góðar fréttir og þær eiga klárlega eftir að hjálpa okkur.“ Subway-deild kvenna Valur Keflavík ÍF
Það var hart barist þegar Keflavík og Valur mættust í 11. umferð Subway-deildar kvenna, í Blue-höllinni í Keflavík. Skemmst er frá því að segja að Valur náði strax forystunni og lét hana aldrei af hendi fyrir utan eitt skipti í fyrsta leikhluta þar sem Keflavík komst um skamma hríð yfir, 6-5. Munurinn hélst yfirleitt í kringum 10 stig allan leikinn, lokatölur: Keflavík 75-Valur 84. Keflavík beið þar með sinn fyrsta ósigur í deildinni á þessari leiktíð en staða liðanna í deildinni er þó enn óbreytt. Keflavík er enn í efsta sæti með 20 stig og Valur í því þriðja, með 16 stig, eftir að liðið í öðru sæti, Haukar vann sinn leik í þessari umferð. Valskonur tóku strax forystuna í fyrri hálfleik og héldu henni fram til hálfleiks fyrir utan þennan stutta tíma sem Keflavík hafði eins stigs forystu. Þær voru með 1-4 stiga forystu þar til 1. leikhluti var hálfnaður þá náðu þær að auka forskotið í tæp 10 stig og voru yfir 11-21 eftir leikhlutann. Keflavík herti pressuvörn sína í öðrum leikhluta en náði muninum mest niður í 6 stig en Valskonur juku hann í 9 stig fyrir hálfleik, 38-47. Valur spilaði góða vörn allan hálfleikinn og Keflavíkurkonur hittu ekki eins vel og þær hafa gert fyrr í vetur. Í raun var seinni hálfleikurinn eins og sá fyrri. Valskonur héldu Keflvíkingum í um það bil 10 stiga fjarlægð allt fram til loka leiksins. Valskonur spiluðu aggressíva vörn og mörg skota Keflavíkur voru úr erfiðum færum. Í nokkur skipti náðu Valsarar að koma í veg fyrir að Keflavík næði skoti áður en skotklukkan rann út. Keflvíkingar fóru nokkrum sinnum illa að ráði sínu þegar tækifæri gafst til að minnka muninn frekar og misstu boltann eftir slæmar sendingar sín á milli. Aldrei náðist að gera áhlaup á Valsara og því fór sem fór. Eftir þriðja leikhluta var staðan 54-65 og í lok þess fjórða náði Keflavík aðeins að minnka muninn um tvö stig, 75-84. Fyrsti ósigur þeirra á þessu tímabili því staðreynd. Af hverju vann Valur? Í stuttu máli sagt með mjög góðum varnarleik. Þær náðu oft að gera Keflvíkingum afar erfitt fyrir í sóknarleik þeirra. Að sama skapi var varnarleikur heimakvenna ekki eins árangursríkur þótt þær reyndu að beita sinni frægu pressuvörn. Þegar þær náðu að þvinga fram mistök hjá gestunum náðu þær yfirleitt ekki að nýta sér það til fullnustu. Valskonur hittu vel, sérstaklega úr þriggja stiga skotum, 42% á móti 28% hittni Keflvíkinga. Minna munaði á hittni liðana úr tveggja stiga skotum en þar hittu Valskonur einnig betur. Körfubolti er ekki flókinn leikur. Það lið sem hittir oftar ofan í körfuna vinnur. Hverjar stóðu upp úr? Í liði Vals stóð Dagbjört Dögg Karlsdóttir upp úr en hún var stigahæst með 18 stig og skoraði þau öll úr þriggja skotum. Hún hitti úr 6 af 8 skotum fyrir utan línuna. Kiana Johnson kom næst með 16 stig og 11 stoðsendingar en það er ekki oft sem hún er ekki stigahæst í Valsliðinu. Ásta Júlía Grímsdóttir var sterk undir körfunni og tók 11 fráköst. Í liði Keflavíkur stóð Daniela Wallen Morillo upp úr með 27 stig og 10 fráköst. Hvað gekk illa? Í raun gekk allt illa hjá Keflavík. Sóknarleikurinn var brösóttur og heimakonur náðu aldrei að finna lausnir á varnarleik gestanna. Varnarleikur Keflvíkinga gekk heldur ekki vel og Valskonur voru með 42% nýtingu í þriggja stiga skotum sem þær fengu oft að taka óáreittar. Allt byrjunarlið Vals skoraði 10 stig eða meira í leiknum en aðeins tveir byrjunarliðsmenn hjá Keflavík, Daniela Wallen Morillo og Anna Ingunn Svansdóttir. Keflavíkurliðið þurfti því augljóslega meira framlag frá fleiri leikmönnum Hvað gerist næst? Næsta umferð verður spiluð næstkomandi miðvikudag, 7. desember, en þá fær Valur Grindavík í heimsókn á Hlíðarenda en Keflavík sækir Breiðholtið heim og mætir sigurlausu botnliði ÍR. Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals.Vísir/Bára Dröfn „Þær voru bara töffarar í dag“ Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með sigurinn og þakkaði hann helst varnarleik og samheldni síns liðs: „Við vorum hrikalega fókuseraðar í 40 mínútur fannst mér.“ Ólafur sagðist hafa rætt við sína leikmenn um að Keflavík væri með frábært lið og myndi gera áhlaup og ná „runni“, gera nokkrar körfur í röð. Dagskipunin var sú að hugsa ekki um körfur Keflvíkinga heldur róa öllum árum að því að koma í veg fyrir næstu körfu. Aðspurður um hvað í þessum leik hann og liðið gæti tekið með sér í næstu leiki endurtók Ólafur áherslu sína á varnarleikinn: „Svona varnarleikur, svona áræðni. Þær voru bara töffarar í dag og það er svolítið það sem okkur hefur vantað.“ Valur vann leikinn án nýrra leikmanna liðsins, Emblu Kristínardóttur og Hildar Bjargar Kjartansdóttur. Ólafur var fullur bjartsýni eftir leik og sagði að þegar þær byrjuðu að spila með liðinu myndi vegferð Valsliðsins að Íslandsmeistaratitlinum styrkjast enn frekar. Ætlunin væri að lyfta liðinu upp úr þriðja sætinu. Hann fór ekkert í grafgötur með að stefnt væri á titilinn: „Að sjálfsögðu annars værum við ekki hérna.“ Dagbjört Dögg Karlsdóttir.Vísir/Hulda Margrét Hitti svona vel með því að hugsa sem minnst Dagbjört Dögg Karlsdóttir var stigahæst í liði Vals í kvöld með 18 stig sem komu öll úr þriggja stiga skotum en hún hitti úr 6 af 8 skotum sem er 75% nýting og verður að teljast ansi gott. Þegar hún var spurð hvernig hún fór að því að hitta svona vel var svarið: „með því að hugsa sem minnst, held ég. Þá dettur þetta oftast.“ Hún sagði að upplagið frá Ólafi þjálfara hefði verið að spila eins harða vörn og mögulegt var. Ætlunin hefði verið að mæta þeim harða varnarleik sem Keflavíkurliðið hefur verið þekkt fyrir í vetur með því að svara í sömu mynt. „Við höfum verið að reyna að bæta okkar varnarleik með því að ýta svolítið liðunum í einhverja vitleysu.“ Ætlunin væri að halda því áfram og gera það enn betur í næstu leikjum. Dagbjört var sammála því að það væri enn frekari ástæða til bjartsýni um að Valsliðið gæti spilað ennþá betur eftir að það hefði sigrað efsta lið deildarinnar án nýju leikmannanna tveggja, Emblu og Hildar. „Nú allt fram að þessum leik höfum við alltaf talað um við eigum alveg hellings inni. Mér fannst það svolítið skína í dag að við vorum bara að sýna hvernig okkar leikur er og hvernig við eigum að vera að spila körfubolta. Þessi frammistaða og svo erum við að fá tvo mjög öfluga og góða leikmenn. Ég held að það séu bara mjög góðar fréttir og þær eiga klárlega eftir að hjálpa okkur.“