Innlent

Ölvaðir og undir áhrifum fíkniefna í umferðinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla að störfum.
Lögregla að störfum. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók árásarmann í póstnúmerinu 111 í gærkvöldi, eftir að tilkynning barst um líkamsárás. Engar upplýsingar liggja fyrir um áverka þolandans.

Flest verkefni gærkvöldsins og næturinnar virðast annars hafa verið umferðartengd, ef marka má yfirlit frá lögreglu. Flest voru þau á höndum lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti.

Um klukkan 18 var tilkynnt um umferðarslys í Kópavogi þar sem ökumenn tveggja bifreiða áttu í hlut. Tjónvaldur var handtekinn á vettvangi grunaður um ölvun við akstur. Var hann vistaður í fangageymslum.

Um klukkustund síðar var tilkynnt um annað umferðarslys í Kópavogi, einnig af völdum ölvaðs ökumanns.

Í Seljahverfi var bifreið stöðvuð um klukkan 22.30 en ökumaður hennar var grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. 

Þá var tilkynnt um athugavert aksturslag bifreiðar í póstnúmerinu 201 í nótt en við eftirgrennslan reyndist bifreiðin ótryggð og voru skráningarmerki hennar fjarlægð.

Í miðborginni var tilkynnt um rúðubrot og náðist sá seki.

Þá var bifreið stöðvuð í póstnúmerinu 104 og ökumaðurinn handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Neitaði hann ítrekað að blása í mæli og var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×