Innlent

Leitar­svæðið á Faxa­flóa stækkað í dag

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leit Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita að skipverjanum heldur áfram í dag.
Leit Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita að skipverjanum heldur áfram í dag. Vísir/Vilhelm

Leit að skipverja, sem féll útbyrðis af fiskiskipi á laugardag, heldur áfram í dag. Leitarsvæðið hefur verið stækkað nokkuð en bæði varðskipið Þór, þyrla Landhelgisgæslunnar og leitarskip björgunarsveita munu taka þátt í leitinni.

Leit hefur staðið yfir að manni sem féll frá borði línuskipsins Sighvats GK-57, sem er í eigu Vísis hf í Grindavík, síðan á laugardag. Varðskipið Þór, þyrla Landhelgisgæslunnar, Björgunarsveitir og fiskiskip og -bátar frá svæðinu hafa tekið þátt í leitinni um helgina.

„Leit að skipverjanum hófst aftur í birtingu. Varðskipið Þór var á svæðinu í nótt og kemur til með að leita áfram í dag ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar,“ segir Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. 

Auk þyrlu og varðskips muni björgunarskipið Oddur V. Gíslason frá Landsbjörgu taka þátt í leitinni í dag.

„Leitarsvæðið hefur verið stækkað frá því í gær. Í gær vorum við að vinna á svæði sem eru 10x10 sjómílur, í radíus 25 sjómílum út frá Garðskaga. Í dag erum við að vinna með svæði sem eru 18x18 sjómílur þannig að við höfum stækkað leitarsvæðið frá því í gær,“ segir Ásgeir. 

„Í gær voru, þegar mest var, þrettán skip við leitina. Varðskipið Þór, björgunarskip Slysavarnarfélagsins Landsbjargar ásamt fiskiskipum og -bátum á svæðinu og svo flaug þyrla Landhelgisgæslunnar sömuleiðis eftir hádegi og var þar við leit.“

Vel viðri til leitar í dag og staðan verði tekin eftir daginn.

„Við munum nýta daginn, það viðrar vel til leitar í dag. Sjólag er gott, veðrið er gott. Svo munum við taka stöðuna eftir daginn í dag en munum nýta daginn til leitar.“


Tengdar fréttir

Hefja leit að nýju við birtingu

Leitinni að skipverja sem féll útbyrðis síðdegis í gær var frestað á tíunda tímanum í kvöld, en leit hefur ekki borið neinn árangur. Varðskipið Þór verður á svæðinu í nótt og mun áhöfn þess hefja leit aftur í birtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×