Erlent

Meta hótar að fjar­lægja fréttir af Face­book

Kjartan Kjartansson skrifar
Útgefendur fjölmiðla eru ósáttir við að fá enga hlutdeild í tekjum sem tæknirisar eins og Meta og Alphabet hafa af efni sem þeir hafa lagt vinnu og fjármuni í að framleiða.
Útgefendur fjölmiðla eru ósáttir við að fá enga hlutdeild í tekjum sem tæknirisar eins og Meta og Alphabet hafa af efni sem þeir hafa lagt vinnu og fjármuni í að framleiða. Vísir/Getty

Móðurfélag samfélagsmiðlarisans Facebook hótar því að fjarlægja fréttir af miðlinum ef Bandaríkjaþings samþykkir frumvarp sem á að hjálpa fjölmiðlum í vanda. Fréttir hurfu tímabundið af Facebook í Ástralíu þegar áþekk lög tóku gildi þar.

Frumvarpið sem liggur fyrir Bandaríkjaþingi gerði fréttamiðlum auðveldara að semja sameiginlega við tæknirisa eins og Aphabet, sem á leitarvélina Google, og Meta sem á Facebook. Fjölmiðlar, sem berjast margir í bökkum, vilja hlutdeild í þeim auglýsingatekjum sem tæknirisarnir fá í gengum efni sem fjölmiðlarnir framleiða.

Samtök bandarískra dagblaðaútgefenda hvetur Bandaríkjaþing til þess að bæta frumvarpinu við frumvarp um varnarmál sem þingið þarf að samþykkja. Þau fullyrða að staðarblöð geti ekki lifað af mörg ár af misnotkun tæknirisanna á efni þeirra í viðbót.

„Grípi Bandaríkjaþing ekki til aðgerða fljótt er hætta á að við leyfum samfélagsmiðlum að verða raunveruleg staðarfréttablöð Bandaríkjanna,“ segja samtökin The News Media Alliance.

Meta brást ókvæða við í gær og hótaði Andy Stone, talsmaður fyrirtækisins, að fréttir yrðu fjarlægðar af Facebook í Bandaríkjunum yrði frumvarpið að lögum. Hann sagði að frumvarpið tæki ekki með í reikninginn að deilingar á Facebook færðu fjölmiðlum aukna umferð og áskriftir.

Þá hafa ýmis konar félaga- og hagsmunasamtök hvatt þingið til þess að leggja frumvarpið til hliðar þar sem það skapaði í raun undanþága frá samkeppnislögum fyrir útgefendur og útvarpsrekendur. Ekkert í frumvarpinu tryggi að tekjur sem fjölmiðlafyrirtækin fengju með samningum við tæknifyrirtækinu renni til fréttamanna, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Áströlsk stjórnvöld segja að sambærileg lög sem tóku gildi þar í mars í fyrra hafi að mestu leyti reynst vel. Meta og Alphabet hafi skrifað undir meira en þrjátíu samninga við fjölmiðlafyrirtæki um greiðslur vegna efnis þeirra á miðlunum.


Tengdar fréttir

Facebook semur við yfirvöld í Ástralíu

Samfélagsmiðlarisinn Facebook tilkynnti í morgun að samningar hefðu náðst við áströlsk yfirvöld sem gera það að verkum að opnað verður á ný fyrir streymi frétta á miðlinum í Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×