„Nei, það voru aðrir þættir í dag sem voru bara ekki nægilega góðir. Tæknifeilar hér og þar og vörn og markvarsla datt aðeins niður. Þannig nei, ekkert svoleiðis,“ sagði Snorri Steinn eftir leikinn.
Þá segir hann fátt hafa komið sér á óvart í leik ungverska liðsins, nema kannski hversu mikið liðið fagnaði í leikslok.
„Kannski hvað þeir fögnuðu þessu stigi mikið, það kannski kom mér mest á óvart í leiknum. En að öðru leyti vorum við vel undirbúnir og auðvitað hefðum við getað framkvæmt einhverja hluti betur hér og þar.“
Snorri segir einnig að hans menn geti helst sjálfum sér um kennt að hafa ekki tekið bæði stigin í leik kvöldsins.
„Við náttúrulega héldum ekki nógu vel á spilunum þegar við vorum komnir með forskot og við glutruðum því of fljótt niður. Auðvitað er eitt og annað sem veldur því, en fyrst og fremst fannst mér klaufalegir tæknifeilar og bara hlutir sem við þurfum að gera betur til að halda svona forskoti í svona keppni. Það er of dýrt að þetta fari svona fljótt.“
Mikið álag er á Valsmönnum þessa dagana og næsti leikur liðsins er strax á föstudaginn þegar liðið heimsækir Aftureldingu í Olís-deild karla. Snorri er viss um að sínir menn verði klárir í það verkefni.
„Ég held að menn verði alveg klárir. Við finnum allavegana einhverjar leiðir til þess og mætum þangað til að sækja tvö stig. Það verður erfitt, engin spurning. Afturelding er með gott lið og allt það, en við erum líka með menn sem eru ferskir og geta spilað þann leik. Við tökum stöðuna þegar heim er komið um hvernig standi við erum í og hverja við látum spila,“ sagði Snorri Steinn að lokum.