Hann 71 árs gamli Hinrik kallar sig prins og er sagður tilheyra Reuss-ættinni, sem drottnaði á árum áður yfir hluta Austur-Þýskalands. Reuters vitnar í þýska saksóknara sem segja Hinrik hafa leitað til ráðamanna í Rússlandi því hann hafi talið Rússa mikilvæga í þeirri nýjum heimsskipan sem hann vildi mynda.
Engar vísbendingar eru um að Rússar hafi svarað honum.
Aðrir meðlimir Reuss-ættarinnar höfðu áður útskúfað Hinriki vegna öfga hans.
Hinrik og aðrir sem voru handteknir eru sagðir tengjast Reichsbürger-hreyfingunni svokölluðu sem er hreyfing fjar-hægri öfgamanna sem telja ríkisstjórn Þýskalands ólögmæta. Um tuttugu þúsund manns eru sagðir tilheyra hreyfingunni.
Alls voru 25 handteknir í aðgerðum morgunsins, þar af einn Rússi. Einn þeirra var handtekinn í Austurríki og annar á Ítalíu.
Hópurinn er einnig sagður innihalda Birgit Malasack-Winkemann, fyrrverandi þingkonu þýska hægriflokksins Alternative für Deutschland eða AfD.
Sjá einnig: Þýsku leyniþjónustunni heimilt að fylgjast með AfD
Saksóknarar segja 27 aðra grunaða um aðild að ráðabrugginu. Þýski miðillinn DW segir yfirmann í sérsveitum Þýskalands vera meðal hinna grunuðu auk annarra hermanna í þýska hernum.
Hinrik og aðrir sem voru handteknir í morgun eru sagðir hafa ætlað sér að gera árás á þýska þinghúsið og taka þar fólk í gíslingu. Síðan hafi þeir ætlað að mynda nýja ríkisstjórn undir stjórn Hinriks.
Fram hefur komið að rúmlega þrjú þúsund lögreglumenn hafi tekið þátt í samræmdum aðgerðum og gert húsleit í rúmlega 130 stöðum – heimilum og skrifstofum – í ellefu af sextán löndum Þýskalands snemma í morgun. Þá var einn handtekinn í Austurríki og annar í Ítalíu vegna málsins í morgun.
DW segir einnig að tilefni aðgerða lögreglunnar í morgun hafi verið rannsókn á öðrum hópi manna sem tengjast Reichsbürger-hreyfingunni og að sá hópur hafi verið að skipuleggja að ræna Karl Lauterbach, heilbrigðisráðherra Þýskalands.
Fólk sem tengist hreyfingunni er sagt aðhyllast margvíslegum samsæriskenningum eins og Q-anon og trúa því að einhvers konar djúpríki stjórni Þýskalandi.