Fjölbreyttara atvinnulíf og nýjar og vaxandi atvinnugreinar eins og ferðaþjónusta, fiskeldi og starfsemi líftæknifyrirtækisins Kerecis í Ísafjarðarbæ hefur hægt og sígandi snúið við fólksfækkun undanfarinna áratuga á svæðinu. Samkvæmt bjartsýnustu spám er nú gert ráð fyrir nokkurri fólksfjölgun á næstu tíu árum.
Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ segir að nú þegar hafi myndast skortur á íbúðarhúsnæði í bænum.

„Já, það vantar íbúðir. Við verðum að finna og útbúa lóðir því hér er að fara fram mikil uppbygging. Þannig að það er íbúðaskortur og við þurfum að vera klár undir það,“ segir Arna Lára.
Í húsnæðisáætlun Ísafjarðarbæjar 2023 til næstu tíu ára eru settar fram spár um fjölgun íbúa og þörfina á nýju húsnæði. Samkvæmt lægstu spánni er reiknað með að íbúum fjölgi um 192, 408 samkvæmt miðspá og 828 samkvæmt háspá.

Það þýðir að byggja þurfi 94 til 402 nýjar íbúðir í bæjarfélaginu á tímabilinu, það er á Ísafirði við Skutulsfjörð, Flateyri, Suðureyri og Þingeyri. Þingeyri væri nú orðin miðsvæðis á Vestfjörðum eftir opnun Dýrafjarðarganga.
„Við eigum ekki mikið land, ekki í Skutulsfirði. Við eigum nóg af íbúðalóðum annars staðar en í Skutulsfirði en það þarf líka að búa til lóðir í Skutulsfirðinum. Við eigum fullt af lóðum á Þingeyri sem við vorum að auglýsa lausar til úthlutunar. En það er alveg satt það þarf að útbúa fleiri lóðir í þessum firði,“ segir Bæjarstjórinn.

Stefnt hefði verið að því að nota efni sem dælt verði upp vegna stækkunar Sundahafnar til að stækka eyrina annað hvort eða bæði við Fjarðarstræti og Sundstræti og inni í Pollinum. Þær hugmyndir komi ekki til framkvæmda að sinni en unnið væri að breytingum á aðalskipulagi sem opni á þann möguleika í framtíðinni.
Bæjarstjórinn segir töluverða möguleika á þéttingu byggðar sem unnið væri að. Stöðug íbúafjölgun frá 2016 eftir áratuga fólksfækkun væru ánægjuleg umskipti.
„Við þurfum svolítið að breyta hugsanahættinum. Við höfum alltaf verið í varnarbaráttunni, að berjast fyrir hverjum og einum íbúa. Erum að sjálfsögðu allaf að passa upp á íbúana okkar en núna þurfum við að vera svolítið brött og horfa fram á veginn og taka þátt í uppganginum. Það er kannski tilfinning sem við Vestfirðingar þekktum ekkert allt of vel en það er góð tilfinning,“ segir Arna Lára Jónsdóttir.