Sport

„Sýndum að við getum unnið lið fyrir ofan okkur“

Andri Már Eggertsson skrifar
Þórir Ólafsson var ánægður með sigur á Fram 
Þórir Ólafsson var ánægður með sigur á Fram  Vísir/Diego

Selfoss vann Fram 32-30 í síðasta deildarleik ársins. Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var afar ánægður með sigurinn í viðtali eftir leik.

„Það var kjörið að fá þennan sigur. Það hefur verið ströggl á okkur þar sem við höfum tapað mikið af stigum og við sýndum það í kvöld að við getum spilað góða vörn og sókn og unnið liðin fyrir ofan okkur,“ sagði Þórir Ólafsson aðspurður hvort það hafi ekki verið ljúft að vinna liðið fyrir ofan Selfoss í deildinni. 

Þórir var afar ánægður með vörn og markvörslu í leiknum sem átti stóran þátt í sigrinum.

„Vörnin var frábær og það var auðvelt fyrir Vilius Rasimas að verja þessa bolta sem komu á markið. Vilius átti líka frábæran leik og varði dauðafæri sem var mikilvægt. Ég var ánægður með hvernig menn börðust og gáfu allt í þennan leik.“

Þórir hrósaði Marko Coric, línumanni, Fram, sem var allt í öllu og fiskaði urmul af vítum.

„Það er erfitt að eiga við Marko Coric því hann er góður og gerir vel í að halda mönnum frá sér. Við lentum í vandræðum með hann en náðum að leysa það með hjálparvörn en þetta var erfitt allan tímann.“

Þórir var ánægður með hvernig Selfoss spilaði í síðari hálfleik og að hans mati var það um miðjan síðari hálfleik þegar Selfyssingar fóru langt með að klára leikinn.

„Um miðjan seinni hálfleik náðum við ágætis áhlaupi bæði varnar og sóknarlega. Við höfum verið í vandræðum með að skora úr færunum okkar en sóknarnýtingin var fín í dag,“ sagði Þórir Ólafsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×