Við fjölluðum um ótrúlega framþróun opinna myndgreiningarforrita, sem geta skilað af sér listaverkum af öllu sem hugurinn girnist á örfáum sekúndum, í kvöldfréttum Stöðvar 2 í lok mánaðar.
Og nýtt æði, þessu skylt, hefur skekið samfélagsmiðla síðustu daga. Tímalínur landsmanna eru stútfullar af gervigreindarportrettum, þar sem viðfangsefnin eru túlkuð á afar fjölbreyttan hátt. Smáforritið sem notað er heitir Lensa. Greiða þarf fyrir notkun og svo hleður notandinn inn allt að tuttugu sjálfsmyndum sem gervigreind notar svo til að framkalla portrettin.
Samtalið byrjað í sumum kreðsum
Fréttamaður lét sjálfur reyna á gervigreindina og sýnir niðurstöður í fréttinni hér að ofan. Afurðirnar voru sannarlega misvel heppnaðar. En hvað þýðir þetta fyrir heim listarinnar?
„Á einn hátt er þetta svolítið „video killed the radio star“. En á annan hátt þýðir þetta kannski ekki neitt,“ segir Anton Kaldal Ágústsson, myndlistar- og tónlistarmaður.
Í því samhengi bendir hann á að gervigreindin sé þrátt fyrir allt nautheimsk vél - með tilheyrandi göllum. En það örli vissulega á áhyggjum af framtíðinni.
„Erlendis er samtalið aðeins byrjað í einhverjum kreðsum. En tæknin er komin töluvert á undan lögfræðinni og höfundarréttinum.“
Með Lensa greiðir notandinn sjö Bandaríkjadali og fær fyrir fimmtíu portrett á örfáum mínútum. Ekki amalegur díll, þó að netverjar hafi raunar furðað sig á því í vikunni að fólk væri að borga fyrir portrettin.
þið eruð raunverulega að borga peninga fyrir þessar ljótu myndir af ykkur?
— Berglind Festival (@ergblind) December 8, 2022
Gæti þetta á endanum leyst listamenn af hólmi?
„Alls ekki. Alls ekki,“ segir Anton. „Þetta er í raun, ef eitthvað þá er þetta tól. En auðvitað geri ég mér líka grein fyrir því að þetta er hröð þróun. En þú þarft alltaf manneskjuna til að fá hugmyndina.“