DR segir frá málinu í dag. Þar kemur fram að til standi að flytja 10 þúsund minka til landsins frá Noregi, Spáni, Póllandi, Finnlandi og svo Íslandi. Samþykki frá dönskum yfirvöldum er þó enn beðið.
Ríkisstjórn Danmerkur tók ákvörðun um það á haustdögum 2020 að öllum 13,5 milljónum minka í landinu skyldi lógað til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar. Ákvörðunin reyndist umdeild í meira lagi og kom í ljós, þegar búið var að fella dýrin, að ákvörðunin ætti ekki stoð í lögum.
Ríkisstjórnin tók ennfremur ákvörðun um að minkarækt skyldi bönnuð í landinu til ársloka 2022. Flestir þeir bændur sem stunduðu loðdýrarækt í landinu þáðu styrki frá danska ríkinu til að hætta ræktuninni og eru einungis fáir sem eru sagðir sjá fyrir sér að hefja starfsemi á ný.
Einhverjir bændanna komu til Íslands fyrr á árinu til að kanna möguleikann á að flytja minka frá Íslandi til Danmerkur, en minkar á Íslandi eru ættaðir frá danska minkastofninum.
„Það skiptir miklu, að þeir eiga rætur að rekja til danskra minka,“ segir loðdýrabóndinn Erik Vammen frá Hobro við DR sem ætlar sér að flytja inn íslenska minka. „Þeir eru í toppgæðum, bæði hvað varðar stærð og gæði. Áætlunin er að þeir verði grunnurinn í danskri minkarækt,“ segir Vammen.
Enn eiga loðdýrabændur eftir að ná samkomulagi við yfirvöld um hver eigi að greiða fyrir Covid-sýnatöku fyrir hvert dýr sem flutt er inn til landsins. Segir að hver sýnataka kosti 643 danskar krónur, um 13 þúsund krónur.