Skoðun

Tölvuleikjafíkn – þarf eitthvað að hafa áhyggjur?

Rannveig Borg Sigurðardóttir skrifar

Dómstólar í Canada munu á næstu mánuðum skera úr ágreiningi þarlendra foreldra við Epic Games, framleiðanda Fortnite tölvuleikjarins. Foreldrarnir stefndu fyrirtækinu á grundvelli þess að leikurinn væri ávanabindandi. Börnin þeirra þrjú væru að berjast við hegðunarfíknavanda eða tölvuleikjafíkn eftir að hafa ánetjast leiknum.

Hegðunarfíkn er tiltölulega nýtt hugtak. Það var ekki fyrr en árið 2013 sem hugtakinu hegðunarfíkn var bætt við opinbera flokkun geðrænna greininga (DSM-5) og árið í 2019 í alþjóðlega tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála (ICD-11). Samkvæmt þessum sömu stöðlum eru tvær hegðunarfíknir skráðar sem slíkar: fjárhættuspilafíkn og tölvuleikjafíkn.

Þess má geta að annars konar „hegðunarfíkn“ sem í daglegu tali er oft vísað til, eins og kynlífsfíkn, matarfíkn og átröskun eru ekki viðurkenndar sem hegðunarfíknir samkvæmt opinberum stöðlum. Meginástæðan er skortur á viðurkenndum rannsóknum og sönnunum þess efnis.

Margir telja hinsvegar að stutt sé í að internetfíkn verði skilgreind sem slík og bætt við næstu opinberu flokkun eða DSM-6. Þegar er hægt að finna sumarnámskeið fyrir börn frá sjö ára aldri sem berjast við tölvuleikjafíkn og internetfíkn, og meðferðarstöðvum fyrir tölvuleikjafíkn hefur skotið upp eins og gorkúlum. Það þarf ekki annað en slá inn leitarorðinu „Gaming Treatment Center“. Eins og með aðra fíknisjúkdóma má ætla að hættan aukist því yngri sem neysla eða notkun hefst.

Hvað er þá til ráða?

Fyrir utan að stefna Epic Games eins og foreldrarnir í Canada, er mikilvægt að fræða börn og unglinga og reyna að seinka eða takmarka aðgang að tölvuleikjum og internetinu. Í öllu falli er þetta [vanda]mál sem þarf að horfast í augu við og opna umræðuna fyrir.

Höfundur er starfandi lögfræðingur í Sviss, nemi í alþjóðlegri fíknifræði við King´s College og rithöfundur.

Heimildir:

https://www.lemonde.fr/pixels/article/2022/12/12/accuse-de-creer-une-dependance-le-jeu-video-fortnite-poursuivi-en-justice_6154067_4408996.html

https://www.who.int/standards/classifications/frequently-asked-questions/gaming-disorder

https://www.psychiatry.org/patients-families/internet-gaming

https://www.summerlandcamps.com/gaming-addiction/summer-camp-video-game-addiction/

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC3480687/




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×