Viðskipti innlent

Af­urða­stöðvar fái ekki undan­þágu frá reglum um ó­lög­legt sam­ráð

Atli Ísleifsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið

Samkeppniseftirlitið leggst gegn frumvarpsdrögum um undanþágur frá samkeppnislögum til handa afurðastöðvum í kjötiðnaði og telur drögin alls ekki til þess fallnar að treysta íslenskan landbúnað.

Þetta kemur fram í umsögn Samkeppniseftirlitsins sem skilað hefur verið inn vegna draga að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum. Matvælaráðuneytið birti drög að frumvarpinu á samráðsgátt stjórnvalda 10. nóvember síðastliðinn.

Á vef Samkeppniseftirlitsins segir að það leggist leggst gegn þeim hugmyndum sem fram komi í frumvarpdrögum matvælaráðuneytisins og fela í sér að veita sláturleyfishöfum víðtæka undanþágu frá grunnreglum samkeppnislaga.

„Tillögur frumvarpsdraganna eru ekki til þess fallnar að treysta íslenskan landbúnað. Að mati Samkeppniseftirlitsins þarf að leita annarra og áhrifaríkari leiða til að treysta stöðu íslenskra bænda og íslensks landbúnaðar, til sóknar í stað varnar. Samkeppniseftirlitið er reiðubúið að taka þátt í slíkri umræðu,“ segir í tilkynningunni.

Frumvarpsdrögin byggja á tillögum spretthóps matvælaráðherra undir stjórn Steingríms J. Sigfússonar, fyrrverandi ráðherra og þingforseta, sem ætlað var að koma með tillögur vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu hérlendis. 

Lagði hópurinn til að kjötafurðafyrirtækjum yrði veitt tímabundin heimild til samstarfs með það að markmiði að hvetja til hagræðingar innan geirans.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×