Frumvarpi innviðaráðherra um leigubílakstur er ætlað er að rýmka mjög þau skilyrði sem þarf til að reka leigubíl. Þar er meðal annars mælt með því að afnumdar verði takmarkanir á heildarfjölda starfsleyfa fyrir leigubílstjóra á Íslandi.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) lýsti því yfir í fyrra að reglur um leigubílaleyfi hér á landi væru ekki í samræmi við EES-samninginn. Núverandi löggjöf gerði nýjum rekstraraðilum erfitt eða ómögulegt að komast inn á markaðinn.
Hagsmunasamtök leigubílsstjóra eru alfarið á móti breytingunum. Í umsögnum þeirra um frumvarpið var því meðal annars haldið fram að það kynti undir ofbeldi gegn leigubílstjórum.
Þegar önnur umræða um frumvarpið hófst í kvöld dreif að hóp leigubílstjóra sem hóf að aka bílum sínum í kringum Dómkirkjuna fram hjá Alþingishúsinu.
Að sögn Daníels Orra Einarssonar, formanns Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra, eru um tuttugu til þrjátíu bílar í hópnum. Lögregla hafi bannað leigubílstjórunum að flauta vegna hávaða sem það skapaði.
Daníel Orri segir að verið sé að brenna bestu lagaumgjörð um starfsemi leigubíla í heiminum á sama tíma og stjórnvöld geti ekki spornað við ólöglegum, svörtum akstri svokallaðra skutlara sem dreifi jafnframt áfengi og fíkniefnum.