Innlent

Neyðarskýli í Reykjavík verða opin á morgun

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Konukot er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur.
Konukot er neyðarskýli fyrir heimilislausar konur. Vísir/Arnar

Neyðarskýlin í Reykjavík verða öll opin á morgun, föstudag. Neyðarskýlin eru þrjú, tvö fyrir karlmenn, við Grandagarð og á Lindargötu, og eitt fyrir konur, Konukot í Eskihlíð.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg að neyðaráætlun í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir hafi verið virkjuð vegna þess mikla kulda sem spáð er á morgun.

Áfram er spáð miklum kulda næstu daga og verður staðan því metin dag frá degi.

Samkvæmt neyðaráætluninni eru skýlin opin allan sólarhringinn þegar veðurskilyrði eru á þann veg að einstaklingum sé hætt við ofkælingu eða alvarlegum slysum.

Neyðaráætlunin hefur það markmið að tryggja upplýsingaflæði til notenda í ótryggum aðstæðum, undirbúa neyðarskýli fyrir aukna aðsókn og breyttan opnunartíma. Auk þess að upplýsa viðbragðsaðila og aðila sem veita heimilislausum þjónustu þegar neyðaráætlun er virkjuð. 

Neyðaráætlunin byggir á samvinnu allra viðbragðsaðila í Reykjavík, bráðamóttöku Landspítala Háskólasjúkrahúss, lögreglu, Rauða krossins, forsvarsmanna tjaldsvæða, Vettvangs- og ráðgjafateymis Reykjavíkurborgar (VoRteymis) og neyðarúrræða fyrir heimilislausa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×