Lítið var skorað framan af leik en staðan var 7-3 fyrir FH þegar tuttugu mínútur voru liðnar en Stjarnan kom til baka áður en hálfleikurinn leið undir lok og var jafnt 11-11 þegar flautað var til hálfleiks.
„Sóknarlega var fyrri hálfleikur hjá okkur ekki góður. Döhler ver nokkra bolta og við breytum í sjö á sex, ég er þó ekki mikill aðdáandi af því kerfi. En það gekk vel í dag og við komust yfir. Það er ástæðan fyrir því að við komust inn í leikinn og leikurinn endar jafn í hálfleik,“ segir Patrekur.
Stjörnumenn fengu fín tækifæri til að slíta sig frá FH-ingum í seinni hálfleik en náðu því ekki.
„Mér fannst við geta lokað þessu fyrr og klárað leikinn. En í staðinn er þetta jafnt allan leikinn og stál í stál. Við fengum nokkur tækifæri til að komast í þrjú mörk. Þetta var óþarflega mikil spenna í restina.“
Patrekur viðurkennir að eitt og annað mátti betur fara í leik liðsins en er í heildina sáttur með sigurinn.
„Þetta fór hægt af stað en við stóðum vel varnarlega en það var misskilningur milli bakvarða og fengum aðeins of mikið af sendingum inn á línunna. Varnarlega var ég mjög ánægður með leikinn, í heildina litið. Við fáum FH leikmennina á þá staði sem við vildum og það er alltaf gott þegar maður sér það ganga upp.“
Liðin hafa nú leikið tvo leiki á aðeins fjórum dögum en þau mættust í Olís-deildinni síðastliðin mánudag þar sem leikar enduðu með jafntefli 29-29. Patrekur sér líkindi með þessum leikjum.
„Þetta var eins og á mánudaginn, það koma kaflar. Þá skoruðum við 19 mörk í seinni hálfleik en bara 10 mörk í fyrri, þetta er bara oft svona kaflaskipt. Þetta snýst um að komast áfram í bikarnum og ég er hrikalega ánægður með það.“
Patrekur segist ekki hafa neina óskamótherja í 8-liða úrslitum.
„Þegar við mætum hér í Kaplakrika og vinnum á móti liði sem hefur varla tapað leik í vetur þá getum við unnið hvaða lið á hvaða velli sem er. Hinsvegar annað slagið, er ég með lið sem getur tapað á móti hvaða liði sem er. Það kemur bara í ljós hver mótherjinn verður. Nú tekur við bara smá frí og síðan æfingar. Frábært hjá okkur að klára þetta í dag.“
Nú tekur við langt jólafrí og segist Patrekur ætla að nýta fríið vel.
„Ég hefði gert það þó að leikurinn hefði tapast en auðvitað er alltaf gaman að fara inn í fríið með sigur. Þetta snýst um að vinna þessa leiki og er mjög ánægður að gera það á móti góðu liði FH.“