Innlent

Fólk furði sig oft á því hversu ódýrt farið er

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Daníel Orri Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, í kuldanum fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun.
Daníel Orri Einarsson, formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama, í kuldanum fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun.

Lögregla lokaði Tjarnargötu í miðborg Reykjavíkur í morgun vegna mótmæla leigubílstjóra, sem óku þar bílum sínum og þöndu flautur, á meðan ríkisstjórnin fundaði í ráðherrabústaðnum. Leigubílstjórar krefjast þess að afgreiðslu leigubílafrumvarps innviðaráðherra, sem verður til umræðu á Alþingi í dag, verði frestað. 

Frumvarpið rýmkar skilyrði sem þarf til að reka leigubíl, meðal annars með því að afnema reglur um heildarfjölda starfsleyfa. Daníel Orri Einarsson formaður Bifreiðastjórafélagsins Frama beið á tröppum Ráðherrabústaðarins í næstum hálftíma í frostinu í morgun til að afhenda ráðherrum yfirlýsingu félagsins.

„Fyrst og fremst hefur okkur fundist okkur haldið utan við umræðuna. Okkar ábendingum hefur verið synjað og það er gert lítið úr okkur í umsögnum og minnisblöðum ráðuneytanna sem við heyrum undir,“ sagði Daníel Orri í viðtali við Elísabetu Ingu Sigurðardóttur, fréttamann, fyrir utan Ráðherrabústaðinn í morgun. 

„Og við erum að vara við afleiðingum sem eru að bitna á almenningi, sem sé verri þjónusta, skert eftirlit og hærra verð og órekjanleiki í þjónustunni. Fólki muni upplifa sömu óþægindi og hefur gerst á Norðurlöndum þar sem þessar breytingar hafa átt sér stað.“

En þarf þetta frumvarp að þýða hærra verð?

„Já, það væri nú bara gaman að skoða það núna. Nú er leigubílaverð á Íslandi með því lægsta í Evrópu miðað við launakjör. Og við höfum verið að bera saman verð. Bara leigubifreið í Stuttgart, maður kemst ekki hálfa leið á því verði sem það kostar hér í leigubíl. Fólk er alltaf að miða við næturtaxtann,“ segir Daníel.

„Dagtaxtinn, hann er miklu lægri. Fólk segir oft: Ha, er þetta ekki dýrara? Því það sér hvað er ódýrt að fara með leigubíl á Íslandi.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×