Vegna innrásar Rússa í Úkraínu fór keppnin, sem ber nafnið Vidbir, fram í neðanjarðarlestastöðinni Maidan Nezalezhnosti í Kænugarði. Stöðin hefur verið notuð sem sprengjubyrgi síðan innrásin hófst fyrir tæplega tíu mánuðum.
Sigurlagið heitir Heart of steel, sem gæti útlagst sem Stálhjartað, og er flutt af raftónlistartvíeykinu Tvorchi. Það er skipað þeim Andrew Hutsuliak og Jeffery Augustus Kenny. Þeir tóku einnig þátt í Vidbir árið 2020 og höfnuðu í fjórða sæti.
Flutning Tvorchi má sjá í spilaranum hér að neðan:
Fá ekki að halda keppnina
Úkraínumenn fóru með sigur af hólmi í síðustu Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með lagi Kalush orchestra, Stefania.
Samband evrópskra sjónvarpsstöðva ákvað í júní síðastliðnum að Úkraínumenn fengju ekki að halda keppnina líkt og hefð er fyrir vegna innrásar Rússa í landið og öryggisáhyggna af hennar völdum.
Keppnin mun þess í stað vera haldin í Liverpool á Englandi dagana 9., 11., og 13. maí næstkomandi.