Fótbolti

Landsliðshanskarnir á hilluna eftir ósætti við þjálfarann aðeins 26 ára gamall

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Andre Onana hefur ákveðið að leggja landsliðshanskana á hilluna.
Andre Onana hefur ákveðið að leggja landsliðshanskana á hilluna. Claudio Villa/Getty Images

Kamerúnski landsliðsmarkvörðurinn Andre Onana hefur ákveðið að hætta að spila fyrir landsliðið eftir að hafa lent í deilum við þjálfara liðsins, Rigobert Song, á nýafstöðnu heimsmeistaramóti í Katar. Onana er aðeins 26 ára gamall.

Onana var aðalmarkvörður kamerúnska landsliðsins í upphafi heimsmeistaramótsins og á að baki 34 leiki fyrir liðið. Hann var hins vegar settur í agabann stuttu fyrir annan leik liðsins á mótinu gegn Serbíu og kom ekki meira við sögu á HM eftir það.

Þessi 26 ára markvörður Inter Milan birti svo færslu á Twitter síðu sinni í dag þar sem hann segir að tíma sínum með kamerúnska landsliðinu sé lokið.

„Allar sögur, sama hversu fallegar þær eru, taka enda. Og sögu minni með kamerúnska landsliðinu er nú lokið,“ ritaði Onana meðal annars í færslu sinni.

„Ég mun halda áfram að styðja liðið sem stuðningsmaður, rétt eins og rúmlega 27 milljón aðrir Kamerúnar gera á öllum leikjum. Ég get ekki annað en þakkað öllum þeim sem treystu mér og trúðu því að ég gæti skilað einhverju til þessa liðs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×