Búast má við versnandi akstursskilyrðum enda mikill laus snjór fyrir og ef hvessir samfara meiri snjókomu má búast við að skyggni til aksturs verði lítið, einkum á heiðum.
„Skilin eru komin að Reykjanesi og munu ganga yfir landið. Það verður staðbundin snjókoma en kannski ekki í alveg sama mæli og var hér fyrir helgi,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Þjóðvegur, milli Hvolsvallar og Kirkjubæjarklausturs, er lokaður en nýjar upplýsingar verða gefnar af Vegagerðinni klukkan 9 í fyrramálið.
Tvö hús að Höfðabrekku, austan Víkur, voru rýmd vegna snjóflóðahættu í kvöld. Um er að ræða hótelhelrými og þjónustuhús og voru gestir færðir í annað húsnæði á vegum þessa sama hótels. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglustjórans á Suðurlandi.
Spáin í kvöld og á morgun
Spáð er norðlægri eða breytilegri átt 5-13 m/s og él á norðaustanverðu landinu, annars úrkomulítið. Vaxandi suðaustanátt undir kvöld, 10-18 og fer að snjóa vestanlands seint í kvöld. Frost 3 til 16 stig, mildast við suðurströndina.
Á morgun er búist við austlægri átt, víða 8-15. Snjókoma suðaustantil og síðar á Austfjörðum, en annars él. Norðlæg átt 10-18 um landið vestanvert um kvöldið, hvassast og él á Vestfjörðum, en styttir smám saman upp og léttir til syðra. Hiti breytist lítið.